144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir það sem ekki var andsvar heldur meðsvar. Ég tek undir það með honum að auðvitað eigum við að hlusta á varnaðarorð vísindamanna, heilbrigðisstarfsmanna og þeirra sem fást við afleiðingarnar af því sem við erum að gera, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að afleiðingarnar blasa ekki við á morgun eða hinn daginn. En það er ekki hægt að hunsa upplýsingar sem koma fram frá landlækni og fleirum, ekki bara hér heldur líka annars staðar. Það er ekki hægt að hunsa það að mikil aukning mun verða í lífsstílstengdum sjúkdómum út af þessu.

Líkt og ég sagði í ræðu minni og í andsvari við hv. þm. Brynjar Níelsson blasa afleiðingarnar af bjórsölunni við. Þær eru bara lengi að koma fram. Það er alveg ljóst að í því tilfelli hefur aukið frjálsræði haft í för með sér afleiðingar sem ég veit ekki hvort allir sáu fyrir þegar þeir samþykktu þetta á sínum tíma. Þá reynslu eigum við að taka með okkur. Það eru allflestir sem reyna að læra af reynslu. Tilraunadýrin læra af reynslu. Ef mýsnar brenna sig tvisvar fara þær þangað sem osturinn er í þriðju tilraun. Það læra allir af reynslu og við eigum ekki að hunsa þá reynslu sem við höfum. Við eigum heldur ekki að horfa fram hjá þeirri reynslu sem við höfum af vörudreifingu á Íslandi. Hún er á fárra höndum og menn dreifa ekki vörum á Íslandi fyrir ekki neitt. Þess vegna mun þessi ráðstöfun líka, fyrir utan lýðheilsuáhrifin, hækka hér vöruverð, matarverð og áfengisverð.