144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir þetta ágæta andsvar.

Það eru nokkrar nauðsynjar sem við Íslendingar kappkostum að séu á sama verði alls staðar. Ég gæti líka nefnt þriðja vökvann til sögunnar, það er bensín. Þar erum við með fimm dreifileiðir á Íslandi. Er það í samkeppni? Nei. Ef við færum saman upp í bíl núna, ég og hv. þingmaður, og færum endanna á milli í Reykjavík þá mundum við örugglega finna dæmi um ódýrasta bensínið. Hverju mundi það muna? 10 aurum á lítra.

Við getum ekki tryggt það og ég hef ekki áhuga á því að koma hér upp gúmmískóverslun ríkisins eða Cheerios-verslun ríkisins, ég hef engan áhuga á því. Það er hins vegar hægt að gera margt til að tryggja svipað vöruverð um land allt. Til dæmis með því að hagræða í flutningum innan lands, sem ekki hefur verið gert. Það væri hægt að gera. Hv. þingmaður talar um mjólk. Mjólk er á heildsölustigi í höndum sama aðila og nýlegar tölur virðast benda til þess að það hafi leitt til hagræðingar, að það hafi leitt til lægra verðs fyrir neytendur og hærra verðs fyrir þá sem framleiða.

Það var eitt sem hv. þingmaður og aðrir meðflutningsmenn hans settu inn í þetta frumvarp, að litlu brugghúsin á Íslandi mundu gera það gott eftir þessa breytingu. Það væri fróðlegt að vita hvaða augum hv. þingmaður lítur reynslulitla heildsala eða litla aðila eins og kartöflubændur í slagi við stóru aðilana. Hvernig ætli þeim mundi farnast í baráttu við risana?