144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

framkvæmd skuldaleiðréttingar.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Jú, það er alveg öruggt að allar forsendur sem eru ekki þegar komnar fram í sjálfum lögunum verða gerðar opinberar, enda eru stjórnvöld ekki í færum til að gera endanlega útreikninga nema allar forsendur hafi verið ákveðnar. Að sjálfsögðu er það þannig.

Annars er það svo að það var fyrir frumkvæði íslenskra stjórnvalda að óskað var eftir áliti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og hvatt til þess að fylgst yrði með framkvæmd þessa máls í stað þess að ferli færi af stað með einhverjum hætti eftir á. Á þessu stigi máls er engin ástæða til að ætla að aðgerðin í heild sinni stangist á við ríkisstuðningsreglur.