144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

útkoma landsbyggðarinnar í fjárlagafrumvarpinu.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er stöðugt unnið að því að gera úttekt á þróun mála á landsbyggðinni og uppbyggingu atvinnulífs þar en það hefur hallað mjög á landsbyggðina á undanförnum árum, sérstaklega og ekki hvað síst á síðasta kjörtímabili þar sem niðurskurður bitnaði mjög hart á landsbyggðinni og þar varð töluvert mikil fækkun opinberra starfa. Ætlunin er að snúa þessu við og við erum á flestum sviðum að bæta í frá því sem var á síðasta kjörtímabili þó að auðvitað vildu menn geta gert enn meira og ætli sér að gera meira í framtíðinni. Nú er þrátt fyrir allt verið að skila fjárlögum í plús en þrátt fyrir það bæta verulega í miðað við framlög á síðasta kjörtímabili á langflestum sviðum.

Hins vegar hafa menn gert sér það að leik á undanförnum vikum að lesa út úr fjárlagafrumvarpinu ýmsa hluti sem þar er ekki að finna. Eitt af því er atriði sem hv. þingmaður kemur inn á, það að loka eigi ýmsum stofnunum og leggja niður störf á landsbyggðinni. Það er ekki ætlunin og kemur ekki fram í frumvarpinu. Það er ekki rétt sem til dæmis hefur verið haldið fram að til standi að fara að loka framhaldsskólum á landsbyggðinni. Það er bara alrangt.

Í fjárlagafrumvarpinu er á langflestum sviðum verið að bæta í frá því sem var á síðasta kjörtímabili. Markmiðið er að bæta enn meira í en til að við getum gert það verða að sjálfsögðu ríkisfjármálin að vera í lagi og sem betur fer er þessari ríkisstjórn að takast að koma þeim í lag.