144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

útkoma landsbyggðarinnar í fjárlagafrumvarpinu.

[10:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ekki hafði ég mikið upp úr þessari ferð frekar en endranær þegar reynt er að spyrja hæstv. forsætisráðherra málefnalega út úr. Ég kýs að taka þessu sem nei, að hæstv. forsætisráðherra hafi engan áhuga á því og ætli ekki að nota til dæmis nokkrar næstu vikur í það að láta fara yfir hvernig þessi mál koma út, heldur fullyrðir hæstv. ráðherra hér galvaskur að það sé verið að bæta í.

Er það að bæta í að leggja fram fjárlagafrumvarp annað árið í röð með 15 millj. kr. í sóknaráætlanir í staðinn fyrir 400 sem veittar voru til þess á árinu 2013? Þannig gæti ég nefnt fjölmarga liði. Er það að bæta í að skera niður framlög til innanlandsflugs? Er það að bæta í, hæstv. forsætisráðherra?

Tölurnar tala nefnilega sínu máli og við lesum þær bara eins og þær standa á prenti á fjárlagafrumvarpinu. Tölur um nemendaígildi sem menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að skera harkalega niður og ekki síst í framhaldsskólum á landsbyggðinni og að kippa gólfinu út sem hefur tryggt afkomu minnstu framhaldsskólanna eru staðreyndir, hæstv. forsætisráðherra. (Forseti hringir.) Það er engin rangtúlkun á því sem stendur á prenti í fjárlagafrumvarpinu.