144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

hagur heimilanna.

[10:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir kosningar talaði Framsóknarflokkurinn mikið um hrægamma sem ættu að greiða kostnað við skuldalækkun heimilanna en núna eftir kosningar hefur hann skipt heimilunum í landinu inn fyrir þá hrægamma og ætlar heimilunum sjálfum að greiða skuldalækkunina. Þannig er skuldalækkun heimilanna sem fyrirhuguð er 5% af skuldum heimilanna og núna á sama tíma kemur flokkurinn fram með 5% hækkun á matarskattinum. Meðalskuldalækkun er um 1 millj. kr. á heimili. Það lækkar greiðslubyrðina um 5 þús. kr. á mánuði. Heimili með 100 þús. kr. matarreikning fær 5 þús. kr. hækkun á matarskatti.

Við þetta bætist að búið er að draga úr vaxtabótum um 13 milljarða frá því sem var árið 2011, eða 3/4 hluta þeirrar fjárhæðar sem á að verja til skuldalækkunar heimilanna og þannig enn frekar senda heimilunum sjálfum reikninginn fyrir þessari aðgerð. Nú hlýtur maður að spyrja: Var það alltaf ætlun Framsóknarflokksins að lækka skuldir heimilanna bara um 5% og hækka matarskattinn á móti um 5%? Er það allur batinn á hag heimilanna sem Framsóknarflokkurinn gaf fyrirheit um í kosningunum, eða minntist Framsóknarflokkurinn ekkert á að það ætti að fara þessa leið fyrir kosningar en fer hana bara eftir kosningar?

Hagur heimilanna styrktist frá 2010–2013, eiginfjárstaðan um 638 milljarða kr. Á næsta ári ætlar hæstv. forsætisráðherra að verja 20 milljörðum í skuldaleiðréttingar en er búinn að draga úr vaxtabótum frá því sem þær voru mestar um 13 milljarða og hækka matarskattinn um 5%. Ætlar hæstv. forsætisráðherra að halda því fram að heimilin séu betur sett eftir en áður, að hér sé um einhverjar aðgerðir að ræða sem skipti sköpum um eiginfjárstöðu heimilanna eða hjálpi heimilunum að ráða við sín mánaðarlegu útgjöld?