144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

hagur heimilanna.

[10:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að forsætisráðherra missi stjórn á sér. Það að afnema vörugjöld á nuddpottum er ekki mótvægisaðgerð við hækkun á nauðsynjar eins og matvöru og húshitun, hæstv. forsætisráðherra, þó að það kunni að vera í einhverjum kreðsum.

Fjölmiðlar geta sjálfir farið yfir það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. 80 milljarða skuldalækkun er 5% af skuldum heimilanna. Til stendur, ef hæstv. forsætisráðherra er ekki kunnugt um það, að hækka matarskatt um 5%. Eiginfjárstaða heimilanna batnaði um 638 milljarða á árunum 2010–2013. Hæstv. forsætisráðherra getur alveg treyst því að ég fer rétt með tölur. 80 þús. millj. kr. leiðrétting sem dreifist á nær 80 þús. heimili sem sóttu um er um það bil 1 millj. kr. á heimili. Flestir vita að eðlileg greiðslubyrði af 1 millj. kr. er um 5 þús. kr. á mánuði og 5% skattahækkun á 100 þús. kr. matarreikning er 5 þús. kr. á mánuði fyrir það sama heimili. (Forseti hringir.) En ég hvet hæstv. forsætisráðherra að gera grein fyrir því í hverju þessara atriða ég var ósannindamaður því að það er fullkomlega ósæmandi (Forseti hringir.) að hann hagi sér á þann hátt að tala með þessum hætti í ræðustól Alþingis. Hér verða menn að sýna meiri virðingu en þetta ber vitni um.