144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:16]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Varðandi stöðu starfs-, verk- og tæknimenntunar reikar hugur þess sem hér stendur aftur í tímann. Fyrir um 20–30 árum var mikil umræða um nauðsyn þess að efla verknám. Síðan tóku tölvurnar að hasla sér völl og margir fengu skiljanlega áhuga á þeim málum.

Hver er staðan í dag? Það vantar mjög víða iðnaðarmenn. Þingflokkur framsóknarmanna var á Vestfjörðum um síðustu helgi og heimsótti m.a. laxeldisfyrirtæki á Suðurfjörðunum. Þar er mikill uppgangur og aukning á störfum. En rafvirkjar, rafsuðumenn, járnsmiðir og fleiri iðnaðarmenn finnast ekki. Heimamenn tjáðu okkur að áður hefði iðnskóli verið á svæðinu og þá hefði framboð iðnaðarmanna verið í lagi. Svo hefði sá skóli verið lagður niður og endurnýjun iðnaðarmanna orðið lítil eða nánast engin.

Ónefndur skólastjóri í framhaldsskóla úti á landi var á dögunum spurður út í starfs- og verknám í hans skóla. Hann svaraði því til að ekki væri hægt að bjóða upp á slíkt nám vegna mikils kostnaðar sem því fylgdi, í tækjum, verkfærum og öðru sem verknámi fylgir. Er það ástæðan fyrir því að framboð á starfs- og verknámi er jafn lítið og raunin er?

Virðulegi forseti. Mér sýnist ástandið í þessum málum lítið hafa breyst á síðustu áratugum. Umræðan er hin sama, um nauðsyn þess að efla starfs-, verk- og tæknimenntun, en framkvæmdin er ekki í samræmi við það.