144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Málið snýst líka um nemendurna. Að komast á samning eru orð sem allir í verknámi þekkja. Maður kemst á samning hjá einhverjum sem maður þekkir; vinatengsl og fjölskyldutengsl virðast stýra því að miklu meira leyti en eðlilegt ætti að vera hvort nemendur komast á samning eða ekki.

Að komast svo á samning er ekki trygging fyrir útskrift. Nemendur geta misst samning af ýmsum ástæðum eða þurfa jafnvel að hafa áhyggjur af kennaraverkföllum. Sem betur fer er hægt að grípa til ýmissa lausna. Ef skólar væru ábyrgir fyrir nemendum fram að útskrift mundi það veita mikið námsöryggi og um það snýst þetta mál dálítið, öryggi.

Það eru einnig miklir möguleikar í nýsköpun, bæði í námi og einnig eftir nám. Alvörubreytingar, segir hæstv. menntamálaráðherra. Lausnin í þessum málaflokki snýst einmitt um að tryggja námsöryggi og efla nýsköpun. Þar er fjölbreytnin. En í heildina litið er þetta miklu stærra mál en bara verkmenntaskólarnir. Málið snýst að nokkru leyti um það að menntakerfið er dálítið úrelt. Hraði breytinganna í samfélaginu er miklu meiri en hraði breytinga í menntakerfinu. Það þarf í raun meiri samræmingu vinnu og náms til þess að halda í við þær breytingar sem fram undan eru.

Hversu stór hluti náms í framtíðinni, náinni framtíð, verður til dæmis í nanó-tækni eða þrívíddarprentun, þar sem við erum með prentuð hús og prentuð húsgögn og því um líkt, eða í forritun og grafískri hönnun sem tengist þessu? Þetta eru brýn mál, það er brýnt að huga að þeim núna strax áður en það verður allt of seint.