144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:29]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um verknám og stöðu þess. Ég verð að viðurkenna að þegar ég fór að leita mér upplýsinga var ég hissa á því hve umfjöllun um verknámið er lítil á internetinu nema það að víða er komið inn á það að skoða þurfi verknámið sérstaklega og þar við situr.

Það sem mig langaði aðeins að koma inn á hér er að við erum oft sammála um ákveðna hluti í umræðunni, t.d. það að þörf sé á frekari kynningu og hvatningu í verknámi, að grunnskólinn eigi að gera eitthvað annað en hann er að gera núna, það þurfi betri náms- og starfsráðgjöf, það þurfi skýrari námsleiðir í framhaldi af iðnnámi, það þurfi meiri sveigjanleika og samstarf við atvinnulífið og engar blindgötur. Hvað meinum við með þessu öllu?

Mig langar að ræða þetta með að grunnskólinn eigi að gera eitthvað annað. Mín upplifun af grunnskólanum er nefnilega sú að við bjóðum upp á hlutfallslega mikið af verk- og listnámi í grunnskólum miðað við marga skóla erlendis. Þegar erlendir gestir koma í okkar skóla þá öfunda þeir okkur bæði af fjölda kennslustunda og aðstöðunni fyrir verklega námið. Ég held reyndar að talsverður munur gæti verið á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu að þessu leyti og kannski bara milli sveitarfélaga.

Eru verkefnin, sérstaklega við lok grunnskólans, kannski ekki nógu krefjandi? Við þurfum einstaklingsmiðun þar eins og annars staðar. Við þurfum fleiri kennara með menntun sem sameinar sköpun, kennslu í hefðbundnum (Forseti hringir.) vinnubrögðum og tengingu við tæknina, það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom (Forseti hringir.) inn á áðan.