144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir stuðninginn og fyrir ræðu hv. þm. Páls Vals Björnssonar, sem ég tek heils hugar undir. Ég þakka einnig málshefjanda, hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur, fyrir umræðuna.

Ég talaði áðan um meiri samvinnu náms og atvinnulífs. Nú vil ég líka benda á að bæta þarf samvinnu náms og samfélags. Þetta er allt ein stór heild; bóknám, verknám, samfélag, atvinnulíf. Við viljum kannski flokka þetta í einhverjar skringilegar brautir, en það er miklu meira samspil í gangi þarna. Í samvinnu náms og samfélags er verið að tala um lýðræði og upplýsingalæsi eins og hverja aðra aðalnámskrá. Við erum upplýsingasamfélag og samfélag tekur sameiginlegar ákvarðanir. Við þurfum að fylla út skattskýrslu, við þurfum að kaupa bíl, kaupa hús, taka lán. Við lærum ekki sérstaklega vel hvernig á að gera þetta fyrr en við gerum það af alvöru í fyrsta skipti. Það er ein stærsta fjárfesting ævi okkar að kaupa hús. Það eru ýmis vandamál sem hafa komið upp í tengslum við það á undanförnum árum. Hvernig væri að huga aðeins betur að því í tengingu náms, í því sem við erum að læra?

Ég vil ítreka áhersluna sem ég lagði á áðan í sambandi við nýsköpun. Það er dálítill lykill að því að vinna stöðugt að framförum og nýsköpun í náminu, eins og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir nefndi er nám ævistarf. Eins og er þá er nám lokað innan steinveggja einhvers staðar úti í mýri. Það er ekkert rosalega gróðavænlegt.