144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans. Hér var talað um forgangsröðun. Við forgangsröðuðum í síðustu ríkisstjórn með því að stofna vinnustaðanámssjóð. Ég vil ítreka það aftur við hæstv. ráðherra að þetta var ekki tímabundin aðgerð. Því er svolítið sérkennilegt að á meðan verið er að skoða málin, eins og hæstv. ráðherra segir, skuli hann leggja sjóðinn niður. Hann ákveður að veita ekki í hann fé í staðinn fyrir að leyfa honum að lifa með ákveðnu framlagi í ljósi þess hvernig til hefur tekist undanfarin fjögur ár og þess sem úr honum hefur verið nýtt. Hann lokar á ákveðnar leiðir á sama tíma og við vitum að erfitt er að komast að í iðnnámi. Orð og gerðir fara ekki saman.

Aftur, þá snýr þetta líka að jafnræði til náms. Það var gert samkomulag við atvinnulífið á þessum tíma og þeir fögnuðu mjög vinnustaðanámssjóði. Þetta var leið sem þeir töldu að kæmi sér afskaplega vel við að viðhalda iðnnámi. En hæstv. ráðherra neitar því að einhverjir þurfi að víkja af því hann ætlar ekki að takmarka iðnnámið. Það stenst ekki. Það stenst ekki miðað við þær tölur sem liggja fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Hverjir eiga að víkja? Ætlar hann að taka það að sér persónulega?

Það á ekki að skilja svona hluti eftir í því tómarúmi sem hér er. Það kom fram áðan að menntaskólinn sem ég starfaði við þarf að láta 40–60 nemendur fara ef taka á við nýjum nemendum næsta haust úr 10. bekk. Hverjir eiga að taka þá ákvörðun?

Um það snýst málið. Ég ítreka (Forseti hringir.) og hvet hæstv. ráðherra til þess (Forseti hringir.) að beita sér fyrir því að setja aftur fjármagn í þennan sjóð, (Forseti hringir.) því að það styrkir þetta nám sem við öll tölum svo vel um á tyllidögum.