144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu máli og lýsi því yfir að ég er sérdeilis ánægður með málið og ég geri ráð fyrir að það séu fleiri. Þetta mál mun skerpa á fjármálum hins opinbera og auka aga. Það veitir ekki af og vonandi smitar það niður í allt þjóðlífið þar sem töluverður skortur er líka á fjármálalegum aga.

Um sérhverja stofnun ríkisins gilda ákveðin lög sem segja hvað hún eigi að gera o.s.frv. En síðustu lögin sem gilda um hverja einustu stofnun eru fjárlögin sem afmarka umfang þjónustunnar og þetta gleymist oft. Menn virðast oft halda, forstöðumenn stofnana, að þeir eigi að starfa samkvæmt þeim lögum sem gilda um stofnunina en gleyma því að fjárlögin ákvarða umfangið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því, ef þetta verður samþykkt, mun þá það agaleysi sem er í gangi í dag verða lagað? Þarf að laga það samkvæmt þessu frumvarpi? Ég nefni til dæmis skuldbindingar vegna B-deildar LSR sem eru alveg gífurlegar, 400 milljarðar. Þarf að fara nákvæmlega ofan í Íbúðalánasjóð o.s.frv. og færa þær skuldbindingar? Getur A-deildin starfað áfram þegar þetta frumvarp er komið án þess að tekið sé á þeim vandamálum sem þar hafa komið upp?