144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við þá fullyrðingu að ríkisstjórnin vilji skjóta sjálfri sér undan öllum þeim góðu viðmiðum sem er að finna í frumvarpinu, það held ég að standist engan veginn skoðun. Í því sambandi er nærtækt að vísa til þess að í fjármálareglunum er t.d. höfuðáhersla lögð á hallalaus fjárlög og niðurgreiðslu skulda. Skuldahlutfall okkar er að lækka og við rekum ríkissjóð í jöfnuði um þessar mundir og munum gera það áfram. Það eru nú kannski bestu dæmin.

Vilji menn grípa einstök mál, eins og hv. þingmaður gerði, og taka skuldaleiðréttinguna eina og sér sem einstakt áherslumál ríkisstjórnarinnar og leggja þessa mælikvarða á það mál þá skulum við hafa það í huga að ráðinu, sem ætlað er að veita umsögn um þetta mál, og reyndar á það líka við um fjármálareglurnar, er ætlað að horfa til heildaráhrifa fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunar hvers árs hvað er að gerast í fjármálum hins opinbera þegar litið er á stóru stærðirnar. Það er ekki svo að menn þurfi að hafa skoðun á einstökum pólitískum áherslumálum jafnvel þótt þau þurfi samanlagt að ná því markmiði sem að er stefnt. Það er ekki þannig að við höfum fært með þessu frumvarpi alla pólitík bara yfir í einhverja tölvu úti í bæ þar sem hægt er að reikna út niðurstöðu um hvort málið standist skoðun. Við höfum ekki fært alla pólitíska umræðu yfir í hendur fjármálaráðs óháðra aðila. Áfram verður tekist á um einstök áherslumál, en við verðum samt að vera sammála um að heildarþróunin sé innan þess ramma sem lagt er upp með.