144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að við munum verða sammála um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar á þessum stutta tíma og hvort þær séu sjálfbærar. En staðreyndin er nú samt sú að þær eru ekki svo íþyngjandi fyrir ríkisfjármálin fram á við litið að við gerum áfram ráð fyrir því að vera með afgang á ríkisfjármálunum jafnvel þótt gert sé ráð fyrir öllum þessum aðgerðum.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að það skiptir miklu máli þegar við erum með rekstrarvanda í ríkiskerfinu hjá okkur, hjá einstökum stofnunum eða félögum, að þá er mikilvægt að tekið sé á þeim málum af festu. Vandi Íbúðalánasjóðs er ekki nýtilkominn, hann er í sjálfu sér tekinn í arf af þessari ríkisstjórn og var ekki komið neitt plan um hvernig ætti að vinna hann niður, en verkefnið er enn til staðar til þess að leysa það. Fyrir mér hefur skipt mestu máli í fyrsta lagi að stöðva blæðinguna, ef ég mætti orða það þannig, sem sagt að stöðva hallareksturinn og skuldavöxtinn innan sjóðsins, það finnst mér að eigi að vera forgangsverkefni, og síðan í framhaldinu að svara því hvernig við viljum byggja húsnæðislánamarkaðinn til framtíðar. Það er eðlilegt að það taki tíma að komast til botns í því máli vegna þess að með því værum við mögulega að gera grundvallarbreytingar á lánafyrirkomulaginu í landinu.

Varðandi aðrar stofnanir munum við alltaf þurfa að vera að vega salt á milli þess annars vegar að reyna að ná með ýtrasta hætti hinum lögbundnu markmiðum einstakra stofnana og síðan að lifa með þeim veruleika sem fjárlögin setja okkur til þess að uppfylla þau skilyrði. Þingið hefur mjög oft gerst sekt um það að lýsa mjög háleitum markmiðum í almennum lögum, það gerist reglulega og það er ekkert nýtt. Við þurfum að færa þá draumsýn (Forseti hringir.) niður á jörðina í fjárlögunum, sem eru hinn blákaldi veruleiki um það (Forseti hringir.) hverju við höfum efni á hverju sinni.