144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:48]
Horfa

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sem kom í pontu ákvað að hnýta í hæstv. ráðherra félagsmála varðandi húsnæðiseklu sveitarfélaganna og að þau uppfylltu ekki skyldu sína varðandi félagslegt húsnæði. Það hryggir mig mjög að hv. þingmaður skuli taka þetta mál upp með þessum hætti undir þessum lið, þetta er tilefni til mikilla umræðna. Hv. þingmaður gegndi sjálfur embætti hæstv. ráðherra síðastliðin fjögur ár og það er alveg ljós sá vandi sem er núna er uppsafnaður. Við getum ekki lokað augunum fyrir því.

Íbúðalánasjóður lánar sérstök lán til leiguíbúða í þessar framkvæmdir. Þar eru niðurgreiddir vextir. Ég held að ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að í ráðherratíð hv. þingmanns hafi verið skrúfað fyrir lánveitingar úr þessum flokki. Og hver er staðan? Í stærsta sveitarfélagi landsins, þar sem eru 850 einstaklingar á biðlista, er vandi sem ekki hefur orðið til á einu ári. Það er uppsafnaður vandi.

Ég tek því upp hanskann fyrir hæstv. ráðherra félagsmála í dag þegar ég segi að hann hafi nú þegar tekið frá fjárhæðir til þess að lána í þessi verkefni. Það sem vantar aftur á móti eru umsóknir frá sveitarfélögunum um að fá lánað úr þessum flokki.