144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en ekkert í því stenst. Í fyrsta lagi opnaði ég sérstaklega fyrir það sem félagsmálaráðherra, með aðstoð hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, að það yrðu niðurgreiddir vextir til félagslegra íbúða.

Í annan stað er vandinn ekki sá að Reykjavíkurborg vilji ekki sækja um. Vandinn er sá að kerfið sem er við lýði og hæstv. félagsmálaráðherra gerir ekkert í að laga, tryggir ekki samkeppnishæfa vexti. Vextirnir sem Íbúðalánasjóður getur boðið með niðurgreiðslu ríkisins eru hærri en vextirnir sem Reykjavíkurborg getur fengið með því að fara bara út á götu og biðja um lán. Það er vandamálið. Og þeir vextir eru of háir til að lágtekjufólk hafi efni á að leigja þetta húsnæði.

Önnur sveitarfélög gætu líka fengið lægri vexti í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga en Íbúðalánasjóður getur boðið með niðurgreiðslu. Sveitarfélögin, sem gætu mögulega bætt við sig þar fyrir utan, utan Reykjavíkur, reka sig upp undir skuldaþakið, og hæstv. ráðherra gerir heldur ekkert í því að lyfta skuldaþakinu. Hæstv. ráðherra getur lagað kerfið sem Íbúðalánasjóður vinnur eftir. Hann getur t.d. látið niðurgreiðsluríkispeningana gilda óháð því hver veitir lánið. Það mundi hjálpa mjög mikið ef Reykjavíkurborg gæti fengið 100 punkta niðurgreiðslu á eigin lánum, vegna þess að Íbúðalánasjóður er ekki samkeppnisfær, hann veitir ekki nógu lág lán. Hann getur ekki aflað peninga með nógu hagstæðum kjörum.

Síðan gætu Kópavogur og Hafnarfjörður bætt við sig íbúðum og þessi sveitarfélög langar til að gera það. Meira að segja sjálfstæðismeirihlutinn í þessum sveitarfélögum vill bæta við sig íbúðum en rekur sig upp undir þakið sem hæstv. félagsmálaráðherra gerir ekkert í að lyfta. Það eru bara hinar biturlegu staðreyndir þessa máls.