144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svara glaður þessari spurningu. Við mættum öllum þörfum sveitarfélaga og öllu því sem sveitarfélög treystu sér til að ráðast í þegar ég var í ríkisstjórn. Þá var staðan hins vegar mjög erfið hjá sveitarfélögum og fæst þeirra treystu sér til að fara í nokkrar framkvæmdir, en við tryggðum niðurgreiðslu á vöxtum alls staðar.

Það sem hefur síðan gerst er að vextir í landinu hafa farið lækkandi og þeir hafa lækkað svo mikið að Íbúðalánasjóður er ekki lengur samkeppnishæfur varðandi niðurgreiðslu, um kjör. Það er ný staðreynd sem núverandi ráðherra málaflokksins verður bara að takast á við. Menn geta ekki verið ráðherrar og verið stöðugt að horfa á hvað menn gerðu í fortíðinni. Ef menn eru ráðherrar verða menn að bregðast við vanda dagsins í dag.

Þetta er ný staða, nýr vandi. Hann er orðinn að veruleika nú og hæstv. félagsmálaráðherra verður auðvitað að bregðast við því. Það mætti t.d. gera með því að breyta lögum og láta niðurgreiðsluna gilda óháð því hvar menn taka lánin, þá þyrfti Reykjavíkurborg, sem getur í dag aflað sér lánsfjár á 3,3% vöxtum, aðeins að borga 2,3% vexti. Það væri sko aldeilis búbót fyrir lágtekjufólk í landinu. Þetta er á valdi stjórnarmeirihlutans. Gjörið þið svo vel, það er einföld lagabreyting.

Ég gekk hér í lagabreytingar til þess að gera Íbúðalánasjóði kleift að ráðast í að lána fyrir hjúkrunarheimilum úti um allt land. Það tókst alveg gríðarlega vel. Það var bara ein lagabreyting. Þegar menn standa frammi fyrir vanda bera þeir ábyrgð á að leysa hann, þeir geta ekki velt honum yfir á aðra og þeir geta ekki reynt að kenna öðrum í fortíðinni um sem ekki stóðu frammi fyrir sama vanda. Við leystum þann vanda sem við stóðum frammi fyrir. Þetta er nýr vandi.