144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[13:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þetta frumvarp sé komið til umræðu að nýju. Ég held að hér sé mikilvægt frumvarp á ferðinni og vona að það náist sem mest sátt um það. Það eykur kannski líkurnar á því að sátt náist að frumvarpið er unnið undir verkstjórn fjögurra fjármálaráðherra úr þremur flokkum. Bæði hefur vinstri stjórn komið að málinu og hægri stjórn. Það ætti að vera grundvöllur fyrir því að hér geti náðst góð sátt, enda er málið afskaplega mikilvægt.

Frumvarpið ber með sér mjög skýra stefnumörkun í opinberum fjármálum eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur farið mjög vel yfir og ég ætla ekki að fara að endurtaka það allt saman. Á fyrri stigum, á síðasta þingi þegar frumvarpið var til umræðu hér, þá fór ég í gegnum það og ég er á svipuðum nótum núna en þarf þó að kynna mér betur þær breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu á milli umræðna. Mér skilst að þær séu ekki í grundvallaratriðum, en við í hv. fjárlaganefnd munum auðvitað taka þær til skoðunar.

Við erum að tala um stefnumörkun til lengri tíma. Gert er ráð fyrir að hún verði vandaðri og formfastari en tíðkast hefur. Það er einmitt eitt af því sem við höfum þurft á að halda, þ.e. að ákveðnir ferlar séu settir og að formfesta sé síðan í ferlinu.

Grunngildin sem frumvarpið byggir á eru afar mikilvæg. Þau eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Það sem við í hv. fjárlaganefnd munum gera, eða sérnefnd ef til þess kæmi, er að fara ítarlega yfir hverja einustu grein í frumvarpinu og máta við grunngildin. Það má ekki víkja frá þeim. Það skiptir okkur mjög miklu máli að þau séu til grundvallar. Þau vega að vísu misþungt en saman eru þau afar mikilvæg.

Það er líka mjög mikilvægt fyrir okkur í þinginu að fá umræðu um fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar til fimm ára og að þingið hafi að vori samþykkt meginlínurnar sem vinna á fjárlagafrumvarpið eftir. Það held ég að sé mjög til bóta. Þá yrði búið að koma okkur inn í vinnuna og sá leyndardómur sem nú ríkir yfir fjárlagafrumvarpinu yrði ekki fyrir hendi. Fjárlagafrumvarpið hefur verið trúnaðarmál þangað til það er lagt fram og enginn hefur mátt nefna hvað í því stendur. Með þessu væri þingið búið að takast á um meginlínurnar, samþykkja þær og setja þær niður og síðan kæmi fjármálaráðherra í byrjun næsta þings á eftir með frumvarpið sem samið hefði verið eftir þeim meginlínum. Um leið yrði stefna meiri hlutans í þinginu skýrari. Þá kæmu ekki upp aðstæður eins og stundum á þessu þingi, að maður vissi ekki alveg hvort stór mál hefðu í raun fylgi meiri hluta stjórnarflokkanna. Dæmi eru um það nú, þegar við höfum rætt fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015, að stjórnarliðar hafa ekki síður tekist á um það en ríkisstjórn og stjórnarandstaða. Línurnar yrðu skýrari og auðveldara að vinna málin.

7. gr. fjallar um reglurnar, hvernig tölulegum reglum og viðmiðum sem við eigum að fara eftir er háttað. Við getum auðvitað tekist á um þær en það skiptir miklu máli fyrir þjóð sem er þannig stödd, með svo miklar skuldir, að ná sem fyrst niður skuldunum, þó að það sé ekki nema bara fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Þjóð sem er svona skuldug má ekki við miklum utanaðkomandi áföllum, alveg sama hvað hún reynir að gera vel hér heima þá þarf ekki mikið að gerast í útlöndum til að staðan versni til muna. Það er því afar mikilvægt að ná niður skuldastöðunni og hafa reglur sem þarf að fylgja samkvæmt lögum í þeim efnum. Við þurfum að máta þessar reglur, eins og fram kom fyrr í umræðunni, við lífeyrisskuldbindingarnar, hvernig við ætlum að vinna á þeim, og síðan aldurssamsetningu þjóðarinnar sem hefur líka kostnað í för með sér.

Við getum tekist á um fjármálaráð, hverjir eigi að sitja í því o.s.frv., en í mörgum nágrannaríkjum okkar er starfrækt hlutlægt fjármálaráð. Menn telja að það hafi jákvæð áhrif á aga í ríkisfjármálunum, en auðvitað getum við talað um hvernig það ráð eigi að vera skipað.

Eins og hæstv. ráðherra fór yfir ber frumvarpið með sér umtalsverða fækkun á fjárlagaliðum. Talað er um málefnasvið og málefnaflokka, að ráðherra fái aukið vald til þess að taka stefnuna og heildarupphæðina og brjóta niður í smærri liði sem síðan verði fjallað um í skýrsluformi á Alþingi. Ég held að þetta skipti miklu máli og að það hjálpi okkur að sjá heildarmyndina. Við tökumst þá á um milljarðana en látum milljónirnar kannski fá minna rými.

Eins er með reikningsskil, að þar séu staðlar sem hjálpa okkur í þinginu að máta okkur við önnur ríki, draga hlutina skýrt fram svo að við getum betur metið hlutina.

Virðulegi forseti. Það er önnur nýjung í frumvarpinu sem ég fagna alveg sérstaklega. Hún er sú að gert er ráð fyrir að kynjuð fjárlagagerð verði lögfest. Ég held að það sé mikið framfaraskref. Kynjuð fjárlagagerð snýst ekki bara um að auka jafnrétti, konur og karlar eru ekki nefnd í fjárlögunum, en samt snýst fjálagagerðin um þau náttúrlega og hefur áhrif á líf allra í landinu, en mismunandi þó eftir kynjum. Þess vegna er nauðsynlegt að greina hlutina og gera það þannig að við getum metið, áður en fjárlagafrumvörpin eru lögð fram til samþykktar, hvaða áhrif ákvarðanir hafa á kynin. Þetta er mikilvægt út frá jafnréttissjónarmiði og þetta getur líka verið mjög mikilvægt út frá byggðasjónarmiði. Ef við tökum til dæmis einhverjar ákvarðanir með fjárlögum sem hafa áhrif á konur á ákveðnum landsvæðum þá getur það haft mikil áhrif á hvernig byggð þróast. Ég er mjög ánægð með að það skuli eiga að lögfesta þessi vinnubrögð. Slíkt verklag lýtur að bættri hagstjórn og fjárlagagerð og því að við förum betur með opinbert fé. Þetta snýst því ekki bara um konur og karla, þetta snýst um jafnrétti, byggðamál og vönduð vinnubrögð.

Við erum nú með kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð í lærdómsferli. Við þurfum að kyngreina gögn og við þurfum að láta tæknina vinna með okkur þannig að við getum til framtíðar lagt línurnar áður en fjárlagafrumvörpin eru samin, en vera ekki í þeirri stöðu sem við erum núna, að taka þau og meta eftir á.

Virðulegi forseti. Verði þetta frumvarp að lögum mun það hafa margþætt áhrif á stjórnsýsluna. Við þurfum að hafa aðdraganda að því hvernig við innleiðum málið og það skiptir miklu máli að við náum góðri sátt, eins og ég sagði hérna áðan, vegna þess að við þurfum að breyta hegðun okkar. Það mun taka á.

Enn og aftur fagna ég þessu máli og hlakka til að takast á við það í nefndinni. Það er ekki nóg að hæstv. fjármálaráðherra sé tilbúinn að fylgja svona lögum eftir, samþykkjum við þetta frumvarp, heldur þurfum við öll að gera það. Það eru ekki bara ráðuneytin heldur þurfa hv. alþingismenn að gera það líka. Við þurfum að vera tilbúin til þess að gangast undir þann aga sem frumvarpið boðar. Það er það sem er verið að kalla eftir og þess vegna vil ég enn og aftur ítreka hvað það er verðmætt að þetta frumvarp hafi verið samið af tveimur ríkisstjórnum, svo ólíkum sem þær eru. Ég held að það auðveldi okkur að sameinast um málið.