144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að frumvarp þetta sé komið á dagskrá. Það var flutt á fyrra þingi og hefur verið til meðferðar í hv. fjárlaganefnd og hefur farið fram ágætisvinna þar. Ég held að þverpólitísk sátt sé um frumvarpið. Það er alltaf ánægjulegt að taka þátt í slíkum málum.

Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá mörgum fyrri ræðumönnum að ef við ætlum að ná auknum aga í ríkisfjármálum er ekki nóg að breyta bara lögum og reglum, við þurfum líka að breyta viðhorfi. Í rauninni má segja að þau lög sem núna gilda um fjárlög ríkisins séu alveg ágæt en við fylgjum þeim ekki. Mér fannst fjáraukalögin í fyrra, 2013, til dæmis gott dæmi um það hvernig ekki var farið eftir þeim lögum sem nú gilda og það ýtir undir agaleysi. Ég vísa bara í nefndarálit minni hlutans við fjáraukalögin fyrir árið 2013 þar sem minni hlutinn bendir á ótal dæmi um fjárlagaliði sem í rauninni eiga ekki heima á fjáraukalögum. Ef við erum að tala um aga og aukinn aga þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að við byrjum hér og nú, eða hefðum byrjað fyrir fimm árum ef þess er að gæta. Reyndar bendir ýmislegt til að aginn hafi verið meiri eftir hrun, kannski vegna þess að brýn nauðsyn var til og við höfðum líka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn horfandi yfir öxlina á okkur, við það jókst aginn. En ég vil aðeins vara við því að við föllum í þá gryfju að halda að við það að setja einhver lög þá verði allt gott. Við þurfum að fara inn í þetta meðvituð um það að við þurfum líka að breyta aðeins viðhorfum og hugsunarhætti.

Ég ætla ekki við 1. umr. að fara djúpt ofan í frumvarpið sem slíkt. Það er ein grein sem ég hef haft sérstakan áhuga á, þ.e. 13. gr. sem fjallar um eða snýr að fjármálaráði. Ráðherra skipar þrjá menn í fjármálaráð til þriggja ára í senn, tveir eru skipaðir af Alþingi og einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra. Þetta gæti því verið fjármálaráð sem er pólitískt skipað ef ekki er sátt um þessa tvo sem Alþingi skipar. Það er meiri hlutinn sem ákveður það, síðan er það forsætisráðherra sem velur einn. Mér fyndist til mikils að vinna að hafa fjármálaráð sem væri ekki pólitískt skipað eða eins lítið pólitískt skipað og hægt væri og hefði þar af leiðandi heldur meiri vigt. Mér finnst að þá grein þyrfti aðeins að bæta.

Ég hef aðeins kynnt mér — ég held að það hafi verið OECD sem gerði skýrslu um fjármálaráð í sex löndum — hvaða áskoranir í rauninni þessi fjármálaráð þurfa að standa frammi fyrir varðandi sjálfstæði, að það sé ekki þannig að stjórnvöld geti einhvern veginn virt að vettugi þær athugasemdir sem fjármálaráð er með, því að ég held að mjög mikilvægt sé að hafa fjármálaráð. Ég held að ef það á að virka þannig að auka agann, geta gert athugasemdir, þá verði það að vera algjörlega sjálfstætt og þora að gagnrýna sitjandi stjórnvöld ef svo býr við. En þetta er eitthvað sem við munum væntanlega ræða í nefndinni.

Ég vona að okkur auðnist að ljúka þessu máli í sátt og samlyndi, það væri virkilega gott. Ég sé ekkert hérna sem ætti að koma í veg fyrir það. Ég ítreka að mikilvægt er að um leið og við setjum ný lög og reglur að við breytum aðeins hugarfarinu og að við verðum öll samstiga í því að reyna að auka agann í ríkisfjármálum.