144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[15:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um opinber fjármál, nýja heildarlöggjöf sem snýr að opinberum fjárlögum. Frumvarpið er mikið að formi og efni. Umræðan hefur verið mjög góð og hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir form og efni frumvarpsins í framsögu.

Mig langar að taka til umræðu og draga formið mögulega meira fram en efnið, kannski kemur það eftir að frumvarpið hefur komið til hv. fjárlaganefndar, þ.e. helstu stefnumótunaráhrifin. Hér hafa margir hv. þingmenn rætt um þau grunngildi sem lögin munu byggja á, og eru í mínum huga nýmæli. Þau grunngildi koma fram í 6. gr. í II. kafla, þ.e. sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.

Löngum hefur verið kallað eftir auknum aga í fjármálum, ég leyfi mér að segja í þjóðfélaginu almennt, og ekki síst í opinberum fjármálum og það hefur komið fram í umræðunni hér í dag. Ég trúi því að með þessu sé verið að taka skref til að bæta agann í opinberri fjársýslu og fjármálum. Það er oft auðvelt að breyta hegðun. Það er erfiðara að breyta viðhorfi og kallað hefur verið eftir breyttu viðhorfi af hv. þingmönnum, mörgum hverjum. Ég er sammála hv. þingmönnum sem hafa rætt þetta mál að erfiðara er að breyta viðhorfinu, en það þarf að breytast. Það er auðveldara að breyta hegðun.

Með slíku frumvarpi eins og hér birtist getum við með breyttu verklagi, eins og boðað er, breytt vinnubrögðunum og með breyttum verkferlum og stefnumarkandi nálgun þá trúi ég að til lengri tíma muni viðhorf breytast og það feli í sér aukinn aga og festu þegar kemur að opinberum fjármálum sem hagstjórnartæki. Það verklag og þau skilyrði sem hér eru boðuð varða afkomu og skuldir. Það tel ég vera lykilatriði og er boðað í 7. gr. í II. kafla að þau skilyrði sem þar eru sett fram og snúa að skuldum og afkomu muni auka trúverðugleika fjármálastefnunnar.

Hér hefur verið komið inn á útgjöld á útgjaldahlið, hvort vera eigi með útgjaldaviðmið. Ég held að sú umræða þurfi að fara fram í nefnd frekar en hér inni í þinginu, þ.e. að skoða útgjaldaviðmið.

Þegar við ræðum um stefnumörkunaráhrif fjármála og fjármálastefnu ríkisstjórnar hverju sinni þá tel ég það til bóta hér að stefnan skuli boðuð í upphafi kjörtímabils og síðan verði fjárlögin, eins og verið hefur reyndar, sett hér fram á hverju ári og leiðirnar frekar afmarkaðar þar. Það er ágætlega farið yfir þetta allt í frumvarpinu. Ég held að við sjáum í framhaldinu öflugra stefnumótunartæki og áætlanagerð þar sem við verðum meðvitaðri um að nýta slíkt. Umfang hins opinbera í hagkerfinu er jú mikið og ef við tökum ríki og sveitarfélög kemur fram að umfangið er um 40% af hagkerfinu. Við erum alltaf að leita að stöðugleika þar sem jafnvægi er á milli framboðs og eftirspurnar, þar sem það hangir svona saman eftirspurnin í hagkerfinu við þá framleiðslugetu sem er hverju sinni. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt þegar kemur að fjármálastefnu.

Ég ætla líka að koma inn á það að ég trúi því að verið sé að taka jákvætt skref, vegna þess að aðdragandinn og undirbúningsvinnan hefur verið allnokkur í langan tíma og farið er ágætlega yfir það í greinargerðinni. Rekja má þetta allt aftur til 1997, þetta hefur farið í gegnum þá hugsun að koma þessu í þetta ferli og þetta mót, farið í gegnum nokkrar ríkisstjórnir og hæstvirta fyrrverandi fjármálaráðherra. Ég held jafnframt að samráð við hagsmunaaðila og aðra aðila, eins og sveitarfélögin, muni styrkja þetta. Það gefur alveg tilefni til þess að trúa því að hér verði tekið skref í þá átt að auka festu í umgjörð opinberra fjármála.

Ég ætla þess vegna að lýsa ánægju minni með frumvarpið, eins og flestallir eða bara allir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls í umræðunni hafa gert, og hlakka til að fá að ræða frekar og fylgjast með meðferð efnislegra atriða frumvarpsins.