144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[15:18]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og sérstaklega fyrir þau, hvað á ég að kalla það, varnaðarorð sem hann viðhafði vegna fjármálaráðsins sem hefur aðeins verið hér til umræðu. Ég tek alveg undir þau sjónarmið sem hann lýsti, það er hætt við að þetta verði ekki óháð ráð heldur beinlínis framlenging á framkvæmdarvaldinu og fjármálaráðuneytinu, fjármálaráðherra, eins og hann lýsti því.

Það er eitt sem mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um. Kannski tók ég ekki nógu vel eftir máli hans, en ég vil inna hann eftir afstöðu til þess sem einnig hefur verið bent á í þessari umræðu og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði að umtalsefni fyrr í dag, þ.e. hvernig þetta frumvarp eins og það er útbúið rímar við stjórnarskrá lýðveldisins, sérstaklega 41. gr. stjórnarskrárinnar og 40. gr. þar sem hlutverk Alþingis er skilgreint, að það megi ekkert gjald greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum, og í 4. greininni, að engan skatt megi taka af nema með lögum. Síðan er einnig þarna um að ræða lántökur sem Alþingi þarf að fjalla um.

Er ekki með þessu í raun, með því að taka einstaka gjaldaliði og tekjupósta út og fara inn í málaflokka eða jafnvel málasvið sem ráðherra hefur síðan tækifæri til þess að flytja á milli, verið að ganga gegn stjórnarskránni eða þeirri hugsun að fjárveitingavaldið liggi hjá Alþingi en ekki (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldið?