144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[15:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Kannski að þingmaðurinn upplýsi mig, ég heyrði ekki ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. En hvernig er þetta í dag? Er þetta ekki þannig að Alþingi ákveður að úthluta fé til ýmissa liða og svo þar innan taka menn ákvarðanir um hvernig skuli verja fénu? Í rauninni er bara verið að færa meira ákvörðunartökuvald til ráðuneytanna en gert hefur verið varðandi áframhaldandi úthlutun.

Hvort það stangast á við stjórnarskrá? Ég stórefast um það nema ríkisstjórn hv. þingmanns sem spyr, hafi klúðrað málunum og þessi ríkisstjórn hafi ekki séð að sér. En þetta er góð spurning og kannski getur hún svarað henni sjálf, kannski er þetta retórísk spurning eða spurning sem ekki krefst svars. Ef svo er þá gengur þetta náttúrlega ekki, ég stórefast um það.