144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[15:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hyggst ekki lengja mikið þessa umræðu um þetta frumvarp til laga um opinber fjármál. Ég er í grunninn samþykkur frumvarpinu enda vann ég að gerð þess ásamt þáverandi fjárlaganefnd síðasta kjörtímabils í ágætu samstarfi við flesta nefndarmenn og embættismenn fjármálaráðuneytis og sömuleiðis fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem komu að þessu við byrjun verksins, en það var í þeirra hlutverki og annarra slíkra að kortleggja fjárlagagerðina, stöðuna í opinberum fjármálum hjá íslenska ríkinu, og sveitarfélögum reyndar, og draga fram kosti og galla sem þar voru og hvað mætti betur fara til að auka trúverðugleika fjárlagagerðarinnar og bæta vinnulagið hjá okkur hvað það varðaði.

Ég hef stundum rifjað upp samskipti okkar eða fyrsta fund okkar í fjárlaganefnd með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á sínum tíma. Reyndar komu fleiri að verkinu þegar þessir aðilar höfðu lagt ákveðið mat á fjárlagagerðina, eftirfylgni fjárlaga, hvernig fjárlög voru unnin, hvernig fjáraukalög voru unnin o.s.frv. Þessi fundur er mér ákaflega minnisstæður og þeim sem hann sátu. Þar var dregin upp fyrir okkur mynd af íslenskri fjárlagagerð í gegnum tíðina, ekki bara á síðustu einu, tveim árunum fyrir hrun, sem þó voru ekki til fyrirmyndar. Fjárlagagerðin, eftirfylgni fjárlaga og vinnulagið, bæði af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis var nánast dæmt dautt og ómerkt. Einhver orð féllu í þá veru að menn hefðu aldrei séð önnur eins vinnubrögð og þau sem hér höfðu tíðkast í nokkru öðru vestrænu ríki.

Það var því við ramman reip að draga í fyrstu þegar lagt var af stað. Ég held að það hafi verið ágætissamhljómur hjá okkur sem komum að þessari vinnu í fjárlaganefnd, eins og ég sagði áðan, þvert á flokka, að þetta gæti ekki verið svona mikið lengur, við gætum ekki haldið áfram því vinnulagi sem var landlægt hér við fjárlagagerð og í eftirfylgni fjárlaga og því agaleysi í fjármálum sem hafði verið árum og áratugum saman. Lausatök þingmanna almennt á því hvernig menn unnu fjárlög kom oft fram í atkvæðagreiðslum um fjárlagafrumvörp þar sem atkvæðagreiðslurnar urðu á annað hundrað við afgreiðslu fjárlaga, þ.e. um breytingartillögur við smáa sem stóra liði, þannig að heildarmyndin var gjörsamlega horfin út í veður og vind hjá flestum þingmönnum þegar búið var að fara í gegnum slíka atkvæðagreiðslu.

Það er margt í þessu frumvarpi sem þarf að sjálfsögðu að ræða. Þar má einnig sjá merki sumra merkilegra breytinga sem teknar voru upp á síðasta kjörtímabili og ég er mjög ánægður með, enda voru þær í lokatillögum þáverandi fjárlaganefndar, að mig minnir í febrúar 2013 þegar þessari vinnu lauk af hálfu ráðuneytisins. Ef ég man það rétt þá var þar sérstakur kafli um kynjaða fjárlagagerð sem stendur hér enn nánast óbreyttur, einstakar orðalagsbreytingar en í heild sinni óbreyttur. Ég man nefnilega eftir því að þegar við hófum að innleiða kynjaða fjárlagagerð í sölum þingsins haustið 2010, sennilega vegna fjárlaga 2011, þá var talsverð umræða um það hér í þinginu og margir þingmenn, aðallega Sjálfstæðisflokksins, fóru háðulegum orðum um kynjaða fjárlagagerð. Gert var góðlátlegt grín að þessu og menn léku sér með orðið. Í því tilfelli flutti skipstjóri ræðu um fjárlagafrumvarpið og lagði mikla áherslu á kynjaða fjárlagagerð og þá var talað um kynjaða skipstjórn. Það voru frammíköll hérna úr sal og gert grín að hugtakinu og hvað við værum að gera með því að innleiða kynjaða fjárlagagerð. Þær raddir eru sem betur fer þagnaðar. Ég held að núna séum við að uppskera eftir þá vinnu, þ.e. að hafa keyrt þetta í gegn. Þetta er enn í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015. Ef ég man rétt var til umræðu hér í sumar niðurstaða á einu verkefni sem velferðarráðuneytið tók fyrir í sinni kynjuðu fjárlagagerð, um kjör eldri borgara á dvalarheimilum og starfsfólks eftir kynjum, sem vakti nokkra athygli. Það var niðurstaða af þeirri vinnu. Ég sé að þessi kafli er nánast óbreyttur í frumvarpinu og fagna því mjög að það sé þverpólitísk samstaða um að halda þessari vinnu áfram og láta hana ganga vel fyrir sig.

Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá nokkrum ræðumönnum hér í dag varðandi skipan í fjármálaráð. Ég tel það mjög mikilvægt. Það var lærdómur sem við í fjárlaganefnd drógum af heimsókn til Svíþjóðar 2011 þar sem við heimsóttum sænska fjármálaráðuneytið, sænska þingið, sænsku fjárlaganefndina, sambærilegar stofnanir og ríkisreikningsnefnd, stofnanir sem héldu utan um lánamálin o.s.frv. Lærdómurinn var sá að það yrði að vera óháð sterkt ráð sem sæi um þessa vinnu, algjörlega aðskilið frá stjórnmálum og þingi. Það virkaði þá á báða bóga þannig að ríkisstjórn eða þing væru ekki heldur bundin af því að fara að tillögum þessa ráðs heldur væri það fyrst og fremst sjálfstætt, gagnrýnið ráð sem væri ætlað að rýna fjárlögin og fjárlagagerðina og leggja til einhverjar úrbætur en leggja fyrst og fremst fram sitt álit. Ég held að við þurfum að fara aðeins yfir það hjá okkur.

Ágætisreglur í mörgum löndum fóru illa í hruninu. Regluverkið í Portúgal var ekki talið það versta, það var í góðu lagi. Menn fóru bara ekkert eftir því. Reglurnar tryggja ekki að fjárlagagerð sé góð en þær eru hins vegar forsendan fyrir því og við eigum auðvitað að fara eftir þeim reglum sem við setjum.

Frumvarpið felur í sér að vald og ábyrgð ráðherra eykst á kostnað þingsins. Víða er talað um ábyrgð. Talað er um að miðað sé að því að auka beina ábyrgð einstakra ráðherra á málefnasviðum og málefnaflokkum sem undir þá heyra. Á bls. 34 segir til dæmis, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi þessu er lögð áhersla á að skýra hlutverk og ábyrgð þeirra sem koma að fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga.“

Og áfram:

„Því er lagt til í frumvarpi þessu að hlutverk og ábyrgð allra sem koma að fjárlagaferlinu, hvort sem er fjárlagagerðinni eða framkvæmd fjárlaga, verði skilgreind með afdráttarlausari hætti þannig að ljóst sé hvar ábyrgðin liggur hverju sinni.“

Ég tek hérna dæmi á stangli. Það er víða talað um ábyrgð og aukna ábyrgð. Svo nær það ekki lengra. Ég spyr, fyrst verið er að færa svo mikla aukna ábyrgð í þessu tilfelli yfir á ráðherra og væntanlega í einhverjum tilfellum embættismenn, hvort þeirri ábyrgð fylgi ekki líka einhverjar skyldur og hvort við þurfum þá ekki í framhaldinu að endurskoða lög um ráðherraábyrgð eða viðurlög við því ef menn standa ekki undir þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem frumvarp eins og þetta felur þeim á hendur.

Ég fann nokkrar athugasemdir í mínum fórum sem ég sé að hafa ekki náð inn í frumvarpið, en vonandi gerist það samt sem áður. Það er orðalag sem þykir kannski ekki merkilegt í heildarmyndinni en skiptir samt máli. Í 6. gr. frumvarpsins er til dæmis talað um hugtakið „varfærni“, með leyfi forseta:

„Varfærni sem miðar að hæfilegu jafnvægi á milli tekna og gjalda …“

Hvað er hæfilegt jafnvægi á milli tekna og gjalda? Þarna finnst mér að þurfi að skilgreina betur um hvað er verið að tala. Markmið frumvarpsins er að skýra og bæta fjárlagaferlið, fjárlagagerðina og meðferð fjármála. Þess vegna tel ég að þetta þurfi að vera skýrara en þarna kemur fram.

Það má benda á nokkur svona atriði í frumvarpinu. Í 33. gr. segir, með leyfi forseta:

„Hver ráðherra skal að staðaldri meta langtímahorfur um fjárhagslega framvindu …“

Við getum spurt okkur: Hvaða tímasetning er það? Hvenær er „að staðaldri“? Í 34. gr. er svipuð tímasetning.

Í 24 gr. er talað um að varasjóður skuli vera að lágmarki 1% af fjárheimildum laga, en það er lítið talað um hinn endann á því sem þarna er.

Það eru nokkrir hnökrar hér og þar sem ég sé í fljótu bragði ef ég ber þetta saman við þá vinnu sem við unnum á síðasta kjörtímabili og hefur kannski ekki náð alla leið inn að þessu sinni, sem ég tel þó að þurfi að ná inn í frumvarpið.

Í 23. gr. segir meðal annars að við framlagningu breytingartillagna við frumvarp til fjárlaga á Alþingi skuli liggja fyrir mat á áhrifum á heildarafkomu ríkissjóðs, skuldbindingar hans og aðrar forsendur fjárlaga. Ég hefði viljað að til viðbótar þessu yrði einhver tímasetning á því hvenær leggja ætti fram breytingar á fjárlagafrumvarpi þannig að við værum ekki að gera það nánast við atkvæðagreiðslu eins og við höfum upplifað hér; breytingartillögur eru ekki einu sinni tilbúnar þegar á að fara í atkvæðagreiðslur, heldur er hlaupið með þær um þingsalinn. Það þarf að vera einhver lokafrestur á því.

Ég spyr mig sömuleiðis að því hvort það þurfi ekki að vera ákvæði í svona frumvarpi um hvenær eigi í síðasta lagi að samþykkja fjárlög, hvort það sé bara 31. desember eða hvort það eigi að vera búið að samþykkja þau fyrir 10. eða 15. Fjárlög og fjárlagafrumvörp eru þess eðlis að það þurfa að vera skýrari reglur um hvernig við förum með þau en hér kemur fram.

Ég hef líka velt því fyrir mér, í ljósi þess að nú er þingið með til umræðu fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015, hvort það væri ekki þess virði fyrir fjárlaganefnd þegar hún tekur þetta frumvarp til umfjöllunar að nota það sem einhvers konar skapalón fyrir það hvernig fjárlagafrumvarp ársins 2015 mundi falla að svona frumvarpi. Nú hefur það komið fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að þessi lög taki ekki gildi fyrr en við fjárlagagerð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017, þ.e. þau taka ekki gildi fyrir frumvarp til fjárlaga 2016, heldur árið eftir. Ég spyr: Gætum við mátað fjárlagafrumvarp ársins 2015 við þetta frumvarp, vinnulagið, innihaldið og hvernig við ætlum að haga okkur við það?

Kosturinn við þetta frumvarp er líka að það er skýrt og agað og að það mun í síðasta lagi taka gildi vegna fjárlaga 2017 og helsti kosturinn að mínu mati er að enginn stjórnmálaflokkur, hvaða nafni sem hann nefnist, getur komið fram með kosningaloforð af því tagi sem var lofað fyrir síðustu kosningar. Það verður ómögulegt með svona fjárlagafrumvarpi. Mikið vildi ég óska að slík lög hefðu verið á Íslandi í aðdraganda kosninga 2013 og komið í veg fyrir þau loforð (Forseti hringir.) sem þá voru gefin og verið er að svíkja í dag.