144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[15:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þó að þingsalurinn sé nú þunnskipaður vil ég aðeins bæta við það sem ég náði ekki að fara nægjanlega yfir í fyrstu ræðu minni, þó á skömmum tíma. Ég endurtek það sem ég sagði um ákvæðin um yfirfærslu fjárheimilda, ég tel að þurfi að fara betur yfir hvort þar sé nógu vandaður málatilbúnaður á ferð. Ég er einkum að vitna þar í 30. gr. Mér finnst það vera skilið of mikið eftir í gömlu horfi að stofnanir eða ráðherrar fyrir þeirra hönd sem ekki hafa fullnýtt fjárheimildir sínar þurfi að sækja það undir fjármálaráðherra, að fá samþykki hans. Að vísu er talað um að skýr efnisleg rök þurfi að liggja fyrir um að útgjöld hafi frestast eða að skýr hagkvæmnissjónarmið liggi til grundvallar, en að öðru leyti er þetta í valdi fjármálaráðherrans án þess að þar sé svo mikið sem reynt að skilgreina einhver viðmið, sem ég held að væri hollt fyrir menn að hafa í þessum efnum. Það væri þá eitthvert hlutfall fjárveitinga hvers árs og ef það safnaðist upp yfir fleiri en eitt ár væri eitthvert hámark sem það þakaðist undir.

Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður kom aðeins inn á og ætlaði aðallega að fjalla um, að ég tel einn mesta ávinninginn af því ef þetta frumvarp verður að lögum að það verði til þess að vinna gegn skammtímahugsun, lýðskrumi eða popúlisma eins og það er stundum kallað, og ábyrgðarleysi í framgöngu stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka, t.d. tengt alþingiskosningum. Ef hægt verður að berja niður glórulaus kosningaloforð með því einfaldlega að benda á að þau fari langt út fyrir þann ramma sem þegar hafi verið lögfestur og þá stefnu sem unnið sé eftir og sem jafnvel viðkomandi flokkar hafi tekið þátt í að setja, ætti að vera gagn í því. Að mínu mati er það ein mesta hættan sem steðjar að — ég vil næstum segja að rótum lýðræðisins og ábyrgra stjórnmála víða á Vesturlöndum, þ.e. tilhneigingin til skammtímahugsunar í stjórnmálunum og atkvæðakaupa á ódýrum forsendum með skammtímaávinning í huga sem menn virðast nánast vera komnir með stjórnmálin smættuð ofan í fjögur ár í mesta lagi og jafnvel bara nokkra mánuði, bara næstu kosningar, til að afla sér fylgis í þeim og hafa ekki miklar áhyggjur af framhaldinu.

Náist það í lög núna verður þó a.m.k. ákveðinn styrkur í því þegar kemur fram á árið 2016, 2017 að það verður að minnsta kosti fram undan.

Ég vil aftur nefna kostnaðarmatið. Ég veit ekki hvað margir hafa flett aftast í bókinni og farið yfir það. Það er dálítið óvenjulegt að frumvarp af þessu tagi, sem er algerlega dæmt til þess að hafa ákveðin skammtímaútgjöld í för með sér — það er bara engin leið að ýta því til hliðar að standa eigi sómasamlega að framkvæmdinni. Þá verður að leggja umtalsverða vinnu í það, bæði í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og í fagráðuneytunum og búa þau í stakk til þess að geta tekið við þeim verkefnum sem þau eiga að taka við. Hvert fagráðuneyti verður væntanlega að efla verulega fjárlagaskrifstofu sína því að þau eiga núna meira og minna að fara með fjárskiptavaldið. En veruleikinn er sá að sum ráðuneytin eru svo veikburða í þessum efnum.

Það má örugglega upplýsa það hér að fjármálaráðuneytið verður að skrifa þann hluta greinargerðar fjárlagafrumvarpsins sem fjallar um mál viðkomandi fagráðuneytis fyrir það. Það er ekki nema kannski tvö, þrjú stærstu og öflugustu fagráðuneytin sem hafa nokkurn veginn getað séð sjálf um rökstuðninginn og útlistunina á málaflokkum sínum í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Burðirnir hafa ekki verið meiri en það. Nú hafa ráðuneytin verið skorin sérstaklega niður um ein 5% í yfirstandandi fjárlögum þannig að væntanlega hafa þau ekki eflst í þeim efnum.

Ég vísa svo til þess sem ég sagði um form og framsetningu fjárlaga og það sem mér sýnist ljóst að það þarf að skoða þingræðislega og stjórnskipulega þáttinn í því máli. Það þarf að vera algjörlega á hreinu að afgreiðsla Alþingis á fjárlögum samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar og að valdið liggi með nægjanlega skýrum hætti þar en ekki útvistað úti í ráðuneytin.

Eignfærsla á fjárfestingum ríkisins til frambúðar og síðan afskrift þeirra í rekstrarreikningi er veruleg breyting. Það er t.d. áhugavert að velta fyrir sér því skipulagi mála þegar kemur að byggingu nýs Landspítala. Þá er það ekki lengur þannig að útgjöldin séu bara gjaldfærð jafnóðum og þau falla til, heldur er eignin eignfærð (Forseti hringir.) á móti í efnahagsreikningi ríkisins og síðan afskrifuð á komandi tímum.