144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[15:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir almennt góðar undirtektir við þetta mál í umræðunni í dag. Mér sýnist að það sé nokkuð góð samstaða um öll meginatriðin, það skiptir máli. Hér hafa verið nefnd til sögunnar ýmis stór og mikilvæg álitamál sem þeir sem komið hafa að samningu málsins þekkja mætavel. Hér má nefna í fyrsta lagi fjármálaregluna. Um hana vil ég segja þetta:

Við lokafrágang á málinu var það skoðun mín að hin almennu viðmið sem er að finna mjög framarlega í frumvarpinu væru ekki nægjanlega skörp og beitt til þess að standa ein og sér sem undirliggjandi fjármálaregla frumvarpsins. Það dregur ekkert úr gildi þeirra sem viðmiðunar. Mér finnst rétt og skynsamlegt að máta fjárlagafrumvörp framtíðarinnar, fjármálaáætlanir og fjármálastefnu, við þessi gildi og geri ráð fyrir því að fjármálaráðið, taki það til starfa, geri það sem og þingið. Með því að hafa tölusett markmið, reglu sem byggir á ákveðnum prósentum, þá göngum við skrefinu lengra.

Hér hefur því verið velt upp í umræðunni hvort þessi viðmið séu hæfileg. Það er skoðun mín að við höfum komist að nokkuð skynsamlegri og heppilegri niðurstöðu fyrir veruleika okkar. Annars vegar tökum við ákveðið tillit í skuldaskilgreiningunni til þeirrar sérstöku stöðu sem uppi er núna vegna þess að við erum með óvenju stóran gjaldeyrisforða sem er að mestu leyti skuldsettur, sem gerir brúttó skuldaviðmið, án tillits til þeirrar sérstöðu sem er tímabundin í mínum huga, ekki að öllu leyti sambærilegt við önnur brúttó skuldaviðmið annarra þjóða. Með 45% markinu erum við líka að undirbyggja það að til lengri tíma, og þá horfi ég til þess tíma þegar við höfum náð skuldaviðmiðinu, getum við aðeins hnikað til þessari skilgreiningu og dregið línuna enn neðar með því að fella út frádráttarliðina. Þar með værum við að herða aðeins á skuldaviðmiðinu.

Mín skoðun er sú að við Íslendingar eigum að setja okkur strangari skuldaviðmið en aðrar þjóðir. Þá er ég að tala um stærri þjóðir með fjölbreyttari efnahag og atvinnustarfsemi sem nær yfir fleiri svið en við þekkjum hjá okkur. Meginverkefni okkar til framtíðar er að fjölga stoðunum undir íslensku atvinnulífi og þar með efnahagslífi. Við búum við tiltölulega fábreytt efnahagslíf í dag með fáum meginstoðum og erum að miklu leyti háð duttlungum náttúrunnar og ástandinu á alþjóðlegum mörkuðum þegar t.d. kemur að útflutningi á bæði fiskafurðum og iðnaðarvöru sem framleidd er hér. Allt þetta leiðir mig til þeirrar niðurstöðu að við eigum að setja okkur lágt skuldaþak.

Þess utan höfum við líka mjög nýleg dæmi þess hversu miklu máli það getur skipt að hafa skuldastöðuna lága ef eitthvað kemur upp á í efnahagslífinu líkt og gerðist hér haustið 2008. Það var algjör grundvallarforsenda þess að við gátum tekist á herðar þau lán sem þá þurfti að taka að við vorum með mjög lága skuldastöðu þegar óskað var eftir lánunum.

Því hefur líka verið velt upp hvort við ættum að vera með útgjaldaviðmið. Ég tel að í andsvörum hafi ég að mestu komið á framfæri sjónarmiðum mínum um það. Það hefur komið til skoðunar. Ég tel að það geti verið ákveðin skörun milli útgjaldareglu og skuldaviðmiða við þær aðstæður sem við búum við núna og það sé sérstaklega heppilegt til næstu allnokkurra ára að einbeita sér að því að ná niður skuldunum. Það gera menn hvort eð er ekki ef þeir missa útgjöldin úr böndunum. Útgjaldavöxtur rekst líka á við grunngildin sem ég nefndi hér í upphafi, þ.e. útgjaldavöxtur sem er að raungildi án vaxtakostnaðar umfram langtímavöxt landsframleiðslunnar.

Að því sögðu geri ég engu að síður ráð fyrir því að menn taki það til skoðunar í nefndinni.

Hér hefur líka verið rætt um samspilið á milli frumvarpsins og fylgiritsins. Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á í því sambandi, að menn þurfa að gæta mjög að stjórnarskrárákvæðum um þau efni varðandi framkvæmdina. Það hefur verið skoðað og er talið að sú útfærsla standist lög þar sem veitt er ákveðið svigrúm til uppfærslu á fylgiritinu innan árs, þó þannig að menn halda sig innan allra heildarfjárheimilda og geta ekki stokkið á milli rekstrar og tilfærslna eða fjárfestinga, að það sé nægjanleg lagastoð fyrir slíkum breytingum innan ársins með þeirri útfærslu sem hér er unnin.

Satt best að segja átti ég alveg eins von á því að umræðan mundi að meira leyti mótast af skiptum skoðunum um hversu langt við ættum að ganga í því að vera með fylgirit yfir höfuð og hvort þingmenn væru sáttir við þá miklu uppstokkun sem er að verða á framsetningu fjárlagafrumvarpsins sem byggir á málefnasviðum samkvæmt frumvarpinu en ekki á útgjaldarömmum einstakra ráðuneyta eingöngu og síðan þessu fylgiriti. Það má hafa skiptar skoðanir um það t.d. hversu mörg málefnasviðin eiga að vera sem við stillum upp.

Á undanförnum árum hafa svo sem verið gerðar ákveðnar breytingar til einföldunar í þessu efni. Við sjáum það t.d. varðandi sendiráð í utanríkisráðuneytinu. Áður var þessu skipt niður á einstök sendiráð en nú erum við með stærri safnlið sem er síðan brotinn niður með greinargerðarskrifum. Það er dæmi um það að verið er reyna að safna saman fjárheimild undir málefnaflokk og beina sjónum sínum að því hvað er almennt að gerast í sendiráðunum og síður í einstökum sendiráðum, enda er það í raun og veru nær ómögulegt fyrir þingið og alveg til að æra óstöðugan að ætla að fara nákvæmlega yfir hvern einasta málefnaflokk að ég tali nú ekki um hverja einustu fjárveitingu í almennum umræðum í þinginu. Ég segi það fullum fetum sem fyrrverandi fjárlaganefndarmaður í eitt kjörtímabil og eftir að hafa heyrt þá umræðu sem átt hefur sér stað hér bæði í nefndinni og inni í þingsal um fjárlögin heilt yfir, að mér finnst miklu skipta að okkur takist að fá dýpri umræðu og leggja meiri áherslu á heildarþróunina.

Til þess að byggja undir þá umræðu þarf að leggja fram áætlanir til lengri tíma en gert er í dag. Það er aukin krafa á ráðuneytin í þessu máli, að þau komi með framtíðarsýn á einstökum málefnasviðum, samræmi hana síðan fjármálaáætluninni og sýni fram á hvernig breytingar inn í framtíðina styðji við þá pólitísku stefnumörkun sem er að finna í stefnumörkun viðkomandi fagráðuneytis. Það er mikið lagt á ráðuneytin með því og mun mögulega kalla á einhvern aukinn kostnað eins og bent hefur verið á hér í umræðunum, en það er ekki gott að sjá það nákvæmlega fyrir hver hann verður. Eflaust verður það breytilegt frá einu ráðuneyti til annars. Eitt er víst að með því verður lagður grundvöllur að miklu dýpri og betri umræðu í þinginu.

Síðan er fjölmargt annað sem ég hef áður farið yfir sem ég gæti svo sem rætt að nýju en ætla ekki að fara að endurtaka mig. Það mun breyta ríkisreikningi töluvert mikið að við færum okkur inn í alþjóðlega reikningsskilastaðla. Við þurfum að taka það til sjálfstæðrar skoðunar í þinginu hvaða áhrif það hefur á framsetningu ríkisreikningsins. Til dæmis má gera ráð fyrir því að þegar lífeyrisskuldbindingar eru gjaldfærðar á hverju ári verði heildarafkoman eitthvað lakari. Hvernig viljum við stilla þessu fram og hvaða svigrúm er innan alþjóðlegra reikningsskilastaðla til þess að vera með mismunandi útfærslur í þessu efni? Það er mjög stórt álitamál. Við stefnum að því að taka upp nýjustu framsæknu reikningsskilastaðlana til þess að tryggja aukið gegnsæi í fjármálum hins opinbera.

Varðandi samráðið við sveitarfélögin þá finnst mér vera góður tónn í þeim samskiptum fram til þessa. Það er áhugi fyrir því að gera betur. Sveitarfélögin hafa nýlega fengið reglur sem við þekkjum öll og má segja að fjármálareglan í þessu frumvarpi sé af sama meiði. Sveitarfélögunum hefur gengið vel að starfa eftir þessum reglum; skuldahlutfallið er að lækka, reksturinn er að batna og mér finnst að tónninn hafi breyst dálítið í umræðunni um fjármál sveitarfélaga. Nú eru þau komin með eitthvert viðmið sem umræðan horfir til. Ef ekki er eitthvert viðmið sem menn hafa komið sér saman um að sé algert hámarksskuldahlutfall fyrir eitt sveitarfélag getur umræðan farið út um víðan völl, en um leið og búið er að segja að það sé þetta skuldahlutfall sem við viljum ekki fara yfir þá mótast öll umræðan í framhaldi af því.

Ég hygg að það sama muni gerast varðandi fjármálareglurnar í þessu frumvarpi, að það að hafa þessi skýru viðmið muni hafa mjög jákvæð og mótandi áhrif á umræðuna um hvert stefnir í opinberum fjármálum svo lengi sem við erum sammála um það. Ég hygg að þau séu hófleg.

Það er alveg rétt sem sagt hefur verið að skuldahlutfallið í augnablikinu er að lækka fyrst og fremst vegna þess að landsframleiðslan er að vaxa, en það er í sjálfu sér enginn ókostur. Fæst ríki ná að slá mjög verulega niður nafnvirði skulda sinna á stuttum tíma. Aðalatriði fyrir flest ríki er að halda aftur af skuldasöfnuninni, stöðva skuldasöfnunina, koma ríkisfjármálunum í jafnvægi og tryggja hagvöxt. Með því verður skuldabagginn léttari byrði. Menn styrkjast að afli til þess að bera þær skuldir. Meiri landsframleiðsla á bak við sömu skuldir gerir mönnum verkið léttara. Það er það sem er að gerast í augnablikinu hjá okkur. Það breytir því ekki að við eigum ekki að gefa frá okkur möguleikann á því á næstu árum að greiða sömuleiðis skuldirnar niður að nafnvirði. Það tel ég hins vegar að muni ekki geta gerst án þess að við förum í eignasölu.

Þetta vildi ég hafa sagt í seinni ræðu minni hér undir lok umræðunnar.

Aðeins varðandi það hvort málið hefði átt að fara í sérnefnd þá opnaði ég á það hér í vor og fannst það í sjálfu sér alveg geta komið til greina. Ég fann hins vegar fyrir mjög sterkum áhuga á málinu í fjárlaganefnd. Fjárlaganefnd hefur fengið kynningar á því oftar en einu sinni. Hún hefur fengið málið til meðferðar og sendi það umsagnar síðastliðið vor. Ég skynja mikinn áhuga í nefndinni til þess að fá málið til sín til að vinna það og klára. Við skulum vona að það takist á þessu hausti þannig að innleiðing þessara reglna frestist ekki um annað ár.

Að svo mæltu þakka ég fyrir málefnalega umræðu.