144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þar sem fjármálaráðherra var ekki í salnum þegar ég flutti ræðu mína áðan vil ég að fram komi að ég er hlynntur frumvarpinu og styð það að markmið þess nái fram að ganga, enda vann ég ásamt öðrum fjárlaganefndarmönnum og í samráði við fjármálaráðuneytið og fleiri að gerð frumvarpsins á síðasta kjörtímabili í ágætri samvinnu. Þetta er liður í bættri fjárlagagerð og nýrri hugsun við fjárlagagerð, eftirfylgni fjárlaga og hvernig við förum með ríkisfjármálin. Ekki voru allir sammála sumum þeim breytingum sem voru gerðar á síðasta kjörtímabili, ég nefni safnliðina sem dæmi þar sem þingmenn voru að ráðstafa peningum út og suður, er reyndar gert núna með meiri tækni, sms-skeytum og slíku. Um það var ágreiningur. En við höfðum þetta í gegn og mikil breyting var á því sem betur fer.

Við gerðum, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, breytingu á lögum um sveitarfélög varðandi skuldamál og fjármál sveitarfélaga og samstarf ríkis og sveitarfélaga hvað það varðar. Það var umdeilt á sínum tíma. Ég heyri ekki marga í dag vilja fara í sama farið og það var þannig að þetta hefur auðvitað áhrif.

Ég nefndi í ræðu minni áðan nokkur atriði varðandi skýrleika í frumvarpinu, ég hef ekki tíma til að fara yfir það allt saman aftur, en í 4. gr. er talað um markmið í fjármálastefnu, þau séu sett fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Ég velti fyrir mér hvort það sé rétta viðmiðið í sjálfu sér, það sé landsframleiðslan sem skuldirnar elta og fylgja eftir, þ.e. hvernig landsframleiðslan er, hvort eigi frekar að finna önnur viðmið.

Ég nefndi í 6. gr. orðalag eins og „viðráðanlegur“ og „hæfilegu jafnvægi“ o.s.frv. sem mér finnst þurfa frekari skilgreiningar á og lagfæringar til að auka skýrleika frumvarpsins. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað af hálfu ráðherrans (Forseti hringir.) að hnykkja frekar á ákveðnum atriðum til að gera frumvarpið skýrara, betra og skiljanlegra en það er núna þó að það sé að flestu leyti ágætt.