144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar undirtektir við þetta mál sem margir eiga þátt í. Ég hef farið yfir það áður að nokkrir fjármálaráðherrar hafa komið að því, ætli þeir séu ekki orðnir fjórir sem hafa starfað í ráðuneytinu á meðan málið hefur verið í smíðum.

Varðandi skilgreiningar hygg ég að í 4. gr. þar sem talað er um að setja markmiðin fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þá sé bara um hefðbundna framsetningu að ræða, nokkuð sem við þekkjum, ekki síst frá alþjóðlegum stofnunum og erum vön að nota sjálf í umræðu, þannig að ég sé ekki annað en að þetta sé góður og gildur mælikvarði þótt megi svo sem alveg sjá fyrir sér þróun ýmissa málaflokka, segjum t.d. útgjalda, að máli skiptir líka að skoða það á grundvelli raunútgjaldavaxtar.

Síðan í 6. gr. — hvað er varfærið, sjálfbært og stöðugt? Að einhverju leyti mun inntak þessara hugtaka ráðast af menningunni hérna í þinginu þegar fram í sækir, hvernig við munum umgangast opinberu fjármálin og hvað menn vilja fella inn undir skilgreiningu þessara hugtaka. Ég held að auðvelt sé að vera sammála um inntakið þegar við höfum ekki til samanburðar neina áætlun til lengri tíma og auðvitað er hér fyrst og fremst verið að horfa til þess að menn séu ekki beinlínis að stuðla að ójafnvægi í þjóðarbúskapnum eða að tefla fram algjörlega óraunhæfum hugmyndum sem ekki er líklegt að geti gengið eftir. Og að því marki (Forseti hringir.) sem þessi viðmið duga ekki til að kreista slíkar áætlanir fram þá er að einhverju marki treyst á fjármálaráðið.