144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Já, ég er sammála því sem ráðherra ræddi um, þ.e. hugarfarið og tíðarandann eins og hann hefur verið hérna í þinginu gegnum tíðina. Ég er sammála því að þær breytingar sem við gerðum á lögum um sveitarfélög leiddu af sér ákveðna hugarfarsbreytingu. Ég ber ríka von í brjósti um að þetta frumvarp muni gera það líka þegar það verður vonandi samþykkt á endanum. Ég er samt ekki algjörlega viss.

Ég velti fyrir mér áðan hvort við ættum að prófa að máta fjárlagafrumvarp ársins 2015, og hvort það hafi verið gert, við þetta frumvarp hérna, hvernig það fellur að því, sem sagt fjárlagagerðin núna. Við höfum stöðugt verið að reyna að bæta fjárlagagerðina á undanförnum árum og erum komin í órafjarlægð frá því sem það var þó að bæta þurfi það frekar. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort það hafi verið gert og hvernig hann meti fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 hvað það varðar.

Í öðru lagi hvort hann sé sammála mér um að frumvarpið um opinber fjármál sem hérna er, verði það lögum, (Forseti hringir.) geti komið í veg fyrir slíka loforðasúpu og óábyrgt tal í aðdraganda kosninga, eins og fyrir kosningarnar 2013, ef það tekur vonandi gildi fyrir kosningarnar 2017, hvort (Forseti hringir.) við náum þá hugsanlega að koma í veg fyrir slíkar æfingar aftur.