144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta samsvari ekki því og fullnægi ekki að öllu leyti því sem ég er að hugsa um í sambandi við að reyna að hafa einhverja áætlanagerð um vænta fjárfestingarþörf, sérstaklega ekki á tímum ef hún er orðin umtalsverð og uppsöfnuð. Ég held að við verðum að horfast í augu við það til dæmis að það bíður uppsöfnuð þörf í vegakerfinu svo nemur gríðarlegum fjárhæðum sem við höfum, bæði á undangengnum síðustu þrengingarárum en kannski allt of langt aftur í tímann, látið eftir okkur að bíða með, þá á ég t.d. ekki síður við tengivegi og héraðsvegi en kannski sjálfan hringveg 1.

Eignfærslan og afskriftir er auðvitað mjög áhugaverð breyting og vissulega hefur ákveðin áhrif þegar við mælum okkur, hvar við séum stödd í skilningnum nýfjárfestingar versus afskriftir, en hvað þá með núverandi eignastabba ríkisins? Verðum við ekki að uppfæra á einhverju eðlilegu virði þær eignir og koma þeim einhvern veginn inn í bókhaldið til þess að fá þessa heildarmynd? (Forseti hringir.) Nú vitum við af verðmætum eignum ríkisins sem eru náttúrlega hlálega lágt metnar í efnahagsreikningi ríkisins. (Forseti hringir.) Nærtækasta dæmið er Landsvirkjun og Landsbankinn.