144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég á stundum ekki alveg til orð þegar hv. þm. Brynjar Níelsson er búinn að vera í pontu. Ég tek bara undir það sem hv. þingmaður á undan mér sagði, og fleiri hafa sagt, það er auðvitað réttur okkar þingmanna að gera athugasemdir þegar ítrekað hefur ekki verið orðið við óskum okkar.

Hins vegar segir hæstv. forseti núna að boðum hafi verið komið til hæstv. heilbrigðisráðherra (Gripið fram í: Verði.) eða verði komið. Ef hann er ekki á landinu og getur augljóslega ekki verið við umræðuna, hyggst forseti þá fresta málinu? Ég held að það snúist núna um að fresta málinu því að það er augljóst að ef við eigum að byrja hér umræðu um þetta mál eftir nokkrar mínútur nær ráðherra tæplega í hús til að sitja þá umræðu.

Ég spyr hæstv. forseta: Hyggst hann fresta málinu þangað til hæstv. heilbrigðisráðherra getur setið umræðuna?