144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur verslun með áfengi verið ansi lengi á hendi ríkisins. Það sem hv. þingmaður lýsti undir lokin var einmitt niðurstaðan af því þannig að það að opinberir starfsmenn afgreiði áfengi hefur ekki komið í veg fyrir að menn hafi farið sér að voða í neyslu áfengis, alls ekki, langt í frá. Það hefur meira að segja heilmikið áunnist í sölu tóbaks, svo maður nefni það, sem er hin varan sem ríkið var lengi með einkasölu á. Eftir að það fór út í verslanirnar hefur salan minnkað mikið en þar held ég að í hlut eigi miklu frekar forvarnir sem ég legg mikla áherslu á. Ég vildi gjarnan styrkja þann þátt enn frekar því að ég vil ekki að menn fari sér að voða, hvorki með tóbaki né áfengi.

Varðandi það að ég hafi einhvern einkarétt á frelsi einstaklingsins ætlaði ég ekki að særa hv. þingmann með því. Ég get alveg unnt honum þess að hann gæti hagsmuna í frelsi einstaklingsins, kannski með öðrum hætti en ég.