144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal svaraði eiginlega fyrri spurningu minni í blálokin varðandi forvarnir. Þá höfum við svarið, hv. þingmaður styður þær. Þannig að það sé á hreinu spyr ég samt: Telur hv. þingmaður ekki að með því að setja áfengi í búðir þurfum við sérstaklega að gæta að því umfram það sem við þyrftum ellegar?

Ég velti fyrir mér skoðun hv. þingmanns á því.

Sömuleiðis langar mig aðeins að heyra í hv. þingmanni um áfengismenninguna. Það er í raun og veru bara tvennt sem ég hef áhyggjur af þegar kemur að þessu frumvarpi. Eins og er styð ég það en áskil mér fullan rétt til þess að skipta um skoðun á hvaða tímapunkti sem er. Menn tala svo mikið um magnið sem er neytt. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór til dæmis út í það að Þjóðverjar drekka meira en Íslendingar ef magnið er mælt. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir hins vegar á heyrir til undantekninga að maður sjái fyllirí í Þýskalandi á borð við það sem maður upplifir hér vissulega um helgar og eiginlega á hverju kvöldi, í það minnsta í miðbæ Reykjavíkur.

Ég hefði áhuga á að heyra meira frá hv. þingmanni um það hvað hann telur stjórna áfengismenningunni.