144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir máli hvað mikið er drukkið þegar magnið fer að verða mjög mikið á einstakling. Það skiptir enn meira máli hvernig þetta magn er drukkið, hvort það er drukkið allt í einu þannig að menn verði ofurölvi og deyi jafnvel áfengisdauða eða hvort menn drekka rólega og yfirvegað yfir lengri tíma en ég hugsa að það hafi miklu minni áhrif á heilsu manna.

Varðandi allar kannanirnar sem hv. þingmaður nefndi þá sé ég ekki að aðgengi aukist neitt voðalega mikið. Útsölustaðir ÁTVR eru fjölmargir, 49 held ég. Jú, þeim fjölgar eitthvað, en þá hættir líka áfengi að vera svona spennandi. Það er það sem ég var eiginlega að tala um. Ég tel að áfengi hafi ákveðna stöðu í hugum Íslendinga. Menn fara inn í ákveðið musteri þar sem opinberir starfsmenn afgreiða þá og þeir fá þar áfengi og kaupa jafnvel pínulítið meira af því að þeir eru nú einu sinni komnir þangað þannig að ég held að aðgengið muni ekkert endilega vaxa fyrir hinn almenna mann. En það sem mun fara er helgiblærinn sem búið er að setja á þessar vörur.