144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi meðal annars meðferðarúrræði áðan. Þau skipta máli. Í öllu þessu samhengi skiptir ekki bara aðgengi máli. Aðgengi er vissulega einn af þeim þáttum sem skipta máli fyrir neyslumynstur fólks. Annað atriði er ásæknin í það, eftirspurnin ásamt lönguninni í þá vöru sem um ræðir, áfengi í þessu tilfelli. Að sjálfsögðu eru forvarnir eitt af því sem miðar að því að minnka löngun fólks í að neyta áfengis og meðferðarúrræði sömuleiðis.

Hv. þingmaður talaði um auglýsingar. Auglýsingar geta haft áhrif. Sýnileiki áfengis er klárlega meiri í samfélaginu núna en áður. Jafnframt ef við förum aftur að aðgengisþættinum þá er aðgengi meira núna bæði hvað varðar sölustaði og þann tíma sem áfengi er selt. Hvort tveggja hefur aukist á undanförnum 15–20 árum. Hvort sem við erum að tala um vínbúðir eða staði sem eru með vínveitingaleyfi hefur hvort tveggja margfaldast auk tímans sem er hægt að kaupa áfengi. Samt sem áður hefur neysla unglinga farið minnkandi frá 1995. Þá sögðust 56% unglinga hafa neytt áfengis undanfarna 30 daga. Nú er hlutfallið komið niður í 31%. Aðgengi hefur klárlega aukist og aukinn sýnileiki, sem maður mundi ætla að yki neysluna, hefur ekki gert það hjá unglingum.

Hefur hv. þingmaður svör eða útskýringar á þessu?