144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér til að þakka hv. þingmanni hjartanlega fyrir ræðuna. Mér finnst það ánægjulegt að hér komi okkar yngsti þingmaður í ræðustól og flytji mjög málefnalega og vel undirbyggða ræðu, vitnandi í rannsóknir og gögn og komist að þeirri niðurstöðu að hér sé vissara að stíga varlega til jarðar og lýsir sig andvíga þessu frumvarpi.

Því hefur m.a. verið haldið fram af sumum talsmönnum þessa frumvarps að allt yngra fólk í landinu vilji þetta og að það sé forneskjulegt og gamaldags deyjandi viðhorf að vera talsmaður aðhaldssamrar stefnu í þessum málum. Hér er a.m.k. ein sönnun þess að svo er ekki.

Ef við erum nú sammála um það, sem er að vísu umdeilanlegt að sumu leyti, að náðst hafi árangur núna á nokkru árabili aftur í tímann litið gagnvart t.d. unglingadrykkju er rétt að hafa í huga að það var í kjölfar þess að á undan komu óhagstæð ár þar sem aldursmörkin færðust niður í könnunum. Áfengisneyslan byrjaði í enn yngri aldurshópum en áður svona fyrstu fimm til tíu árin eftir að bjórinn kom en það hefur náðst árangur núna og hann hefur gert það í þeirri umgjörð sem við erum með. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þá ástæða til að breyta? Mér finnst það skrýtinn málflutningur að einmitt vegna þess að árangur hafi náðst í núverandi fyrirkomulagi eigi að breyta. (VilÁ: En umgjörðin breyttist.) Ég vil bara heyra viðhorf hv. þingmanns í þessum efnum því að mér fannst nálgun sumra sem hún átti orðastað við vera sérkennileg.

Í öðru lagi, af því að hv. þingmaður dró réttilega athyglina að því að þessi breyting væri í fullkominni mótsögn við bæði íslenska og norræna heilbrigðis- og lýðheilsustefnu sem við höfum skrifað upp á og hún varðar auðvitað hæstv. heilbrigðisráðherra og má segja að mörgu leyti félagsmálaráðherra líka, er þá ekki hv. þingmaður sammála því að við ættum að bíða með að ljúka þessari umræðu a.m.k. þangað til við getum átt orðastað við einmitt þá ráðherra sem fara með framkvæmd þessarar stefnu?