144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og fagna þeim. Ég er sama sinnis. Ég held að það sé engin leið að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að breyting af þessu tagi gengi lóðbeint gegn þessari glænýju stefnu undir forustu hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er reyndar byggð á grunni frá fyrri ráðherrum, sem nú hefur verið samþykkt sem hin opinbera stefna Íslands í þessum efnum.

Auðvitað er alltaf sjálfsagt mál að ræða fyrirkomulag þessara mála og endurskoða áherslur, en það er munur á því og að ákveða sisvona og upp úr þurru að fara í öfuga átt, að víkja þannig frá stefnunni. Það er ekki endurskoðun á henni. Það er ekki rökstudd niðurstaða af því að menn hafi farið í gegnum stefnuna og komist að einhverri nýrri niðurstöðu og hendi hér inn frumvarpi sem gengur lóðbeint á þessa opinberu stefnu.

Ég þakka fyrir stuðning við það að við þurfum að fá hér þá hæstv. ráðherra sem fara með þessi mál til orðaskipta við okkur áður en við förum lengra með þetta.