144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessa beiðni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem er hin sama og við höfum, margir þingmenn, sett fram, ekki bara í dag heldur undanfarna daga. Tvívegis hefur verið sagt úr forsetastóli að það verði reynt að búa svo um hnúta að hæstv. heilbrigðisráðherra verði við þessa umræðu áður en málið fer til þingnefndar.

Við höfum fært rök fyrir því hvers vegna við teljum þetta eðlilegt, við höfum vísað í gögn sem voru birt á vef Stjórnarráðsins 24. janúar sl. þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra lýsir sig samþykkan stefnu sem gengur þvert á það frumvarp sem hér er til umræðu. Það er eðlilegt að við fáum að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra hvað þetta varðar þannig að (Forseti hringir.) ég tek undir þá kröfu að málið verði tekið út af dagskrá og ekki til umræðu að nýju fyrr en hæstv. heilbrigðisráðherra kemur í salinn.