144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég furða mig aftur, eins og áðan, á þessum athugasemdum við fundarstjórn forseta frá þessum hv. þingmönnum þegar verið er að flytja þetta þingmannamál. Ég veit ekki hvenær það kom fyrst fram en það er orðið ansi oft og aldrei nokkurn tímann hafa hv. þingmenn sem hafa verið á þingi allan þann tíma, enda engir nýgræðingar, farið fram á það að hæstv. heilbrigðisráðherra mundi mæta eða einhver annar hæstv. ráðherra. Það hefur bara aldrei nokkurn tíma tíðkast og ég þekki það ágætlega þar sem ég var flutningsmaður málsins lengi framan af.

Þetta er þingmannamál. Það erum við þingmenn sem erum að takast á um það og ræða við 1. umr. og þessir þingreyndu þingmenn sem þekkja þingsköpin inn og út vita nákvæmlega að það eru fjölmargar leiðir til að eiga orðaskipti við hæstv. heilbrigðisráðherra ef það er áhugi á því út af þessum málum eða einhverjum öðrum.