144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég get trúað hv. þingmanni fyrir þeirri staðreynd að ég vildi koma óundirbúinni fyrirspurn um þetta mál á framfæri við hæstv. heilbrigðisráðherra um daginn en þá reyndist ekki tími til að taka upp þá umræðu.

Þetta mál hefur ekki alveg staðið í stað á undanförnum árum, sitthvað hefur gerst. Það hefur verið vísað í samþykktir á vegum Norðurlandaráðs þar sem Íslendingar beittu sér sérstaklega í stefnumótun og við höfum vísað í þær samþykktir við umræðuna. Fyrrverandi ríkisstjórn setti líka niður nefnd til að móta stefnu í þessum málaflokki og sú stefna var samþykkt af núverandi ríkisstjórn í desember á síðasta ári. Það er sú samþykkt sem ég er að vísa í að hafi birst á vef Stjórnarráðsins 24. janúar þannig að það er sitthvað sem hefur gerst (Forseti hringir.) í þessum málum, m.a. skuldbinding núverandi ríkisstjórnar. Við vildum heyra (Forseti hringir.) álit hæstv. ráðherra á þessu máli í því ljósi.