144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þm. Jón Þór Ólafsson spurði um fordæmi get ég alveg sagt vegna þess að ég flutti þetta mál að það eru engin fordæmi fyrir því að þeir hv. þingmenn sem hér taka þátt í umræðunni hafi beðið um heilbrigðisráðherra áður. Ég veit það vegna þess að ég flutti þetta mál.

Ég segi bara alveg skýrt að hér er um málþóf að ræða. (Gripið fram í.) Hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á að ein leiðin til að spyrja hæstv. ráðherra væri óundirbúinn fyrirspurnatími. Það er ekki búið að taka þann lið (Gripið fram í.) af þinginu, það er bara ekki hægt, hann verður áfram. Menn geta verið alveg rólegir með það. Óundirbúinn fyrirspurnatími er áfram á dagskrá þingsins. (Gripið fram í.) Hv. þm. Ögmundi Jónassyni leiðist eitthvað að maður bendi á þetta.

Það sem hér er líka komið fram er að menn vilja sjá ráðherraræði þegar menn tala upp ráðherra með þessum hætti. Með fullri virðingu fyrir hæstv. ráðherrum (Forseti hringir.) erum það við þingmenn sem tökumst á um þetta mál. (Gripið fram í.) Hér koma hv. þingmenn og vilja ekki ræða efnislega um þetta (Forseti hringir.) heldur vilja láta þetta snúast um það hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé hér eða ekki.