144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum.

[15:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er fyrst til að taka, hvað varðar umræðu um aðgengi að framhaldsskólum, að 27. febrúar 2012 var birt í ráðuneytinu reglugerð undirrituð af hæstv. þáverandi ráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, þar sem farið er yfir það lið fyrir lið í hvaða röð eigi að taka nemendur inn í framhaldsskólana. Með þessari reglugerð er sem sagt búin til forgangsröðun þar sem tekið er fram hvaða nemendur eigi að taka inn fyrst, hvaða nemendur svo og þannig koll af kolli. Það liggur fyrir. Einnig vil ég vísa hv. þingmanni á lagatextann um framhaldsskólana og inntöku þar.

Hið rétta líkan í málinu er að horfa til þess að nú höfum við Íslendingar búið til þrefalt kerfi á framhaldsskólastiginu, framhaldsskólann, síðan símenntunarmiðstöðvarnar og þá líka háskólagáttir háskólanna sem eru opnar þeim sem eru að fara í háskólanám en hafa ekki lokið stúdentsprófi.

Þá er rétt að horfa til þess þegar kemur að símenntunarmiðstöðvunum að árið 2006 var fjármagnið til símenntunarmiðstöðvanna í kringum 300 milljónir. Þegar horft er til áranna 2012 og 2013 er það fjármagn komið upp í 1,4 milljarða. Það er algjörlega rangt að ekkert fjármagn hafi komið inn í þá námsleið.

Við horfum hér til þess að forgangsraða fjármunum á þann veg að við setjum meiri fjármuni í unga fólkið okkar og horfum um leið til annarra leiða svo þeir sem eru 25 ára og eldri geti farið í nám. Ég lít svo á að það hafi verið aðför gegn framhaldsskólakerfinu þegar fjárframlög á nemanda voru komin, á verðgildi ársins 2014, niður í 890 þús. kr. Það var aðför að framhaldsskólakerfinu, það olli meira brottfalli og því að menntunin rýrnaði.

Nú er þó verið að auka framlag á nemanda í framhaldsskólakerfinu þannig að framlagið er komið vel yfir 1 millj. kr., samkvæmt núgildandi fjárlagafrumvarpi. Áherslan er lögð á þá sem eru yngri og það er forgangsröðun. Hún byggir að sjálfsögðu á því að áfram eru opnar þær leiðir (Forseti hringir.) sem byggðar hafa verið upp á undanförnum árum fyrir fullorðinsmenntunina. (Forseti hringir.) Og má ég líka minna hv. þingmann á það fyrirkomulag sem er annars staðar á Norðurlöndum hvað þessi mál varðar?