144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum.

[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ef hæstv. ráðherra vill leita fyrirmynda á Norðurlöndunum um uppbyggingu framhaldsskóla, er hann þá að boða það að veita framhaldsskólanemendum styrki eins og þar er gert? Auðvitað er ekki hægt að taka hér tilviljunarkenndan samanburð og bera á borð fyrir þingheim.

Aðall íslenskrar menntastefnu hefur verið að gefa fólki tækifæri. Við þekkjum öll fólk sem hefur nýtt slík tækifæri. Verið er að loka öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. Þar hefur fólk fengið tækifæri til að bæta við sig námi þegar því hentar, fólk sem þurft hefur að hverfa frá námi vegna efnahagslegra aðstæðna. Skilaboðin frá hæstv. ráðherra eru þau að nú eigi bara að segja lok, lok og læs.

Það á að hugsa um þá sem eru undir 25 ára aldri í framhaldsskólunum. Þeir sem eru þar fyrir utan eiga ekki að fá tækifæri. Það að vísa fólki enn og aftur, eins og hæstv. ráðherra gerir, á lausnir sem eru langt umfram það sem venjulegt fólk ræður við að borga af eigin launum er ekki raunverulegur valkostur. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að loka leið upp á 13 þús. kr. og bjóða upp á leið upp á (Forseti hringir.) 225 þús. kr. og segja: Við erum að mæta sömu þörfum.