144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

losun gjaldeyrishafta.

[15:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum ítrekað rætt í þessum sal um losun hafta sem eitt mikilvægasta úrlausnarefnið í íslensku efnahagslífi. Það vakti athygli mína nú um helgina þegar Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor kom fram með varnaðarorð hvað varðar losun hafta, þ.e. að þótt mikilvægt sé að tryggja aðgengi að erlendu lánsfé og að vel þurfi að búa að íslenskum fyrirtækjum sem vilji koma sér fyrir víða um lönd og að efla þurfi erlenda fjárfestingu megi það ekki vera á kostnað fólks sem hér býr og kostnað fjárhagslegs öryggis landsins, þ.e. losun hafta má ekki verða til þess að einhverjir aðilar geti hagnast á spákaupmennsku með gjaldmiðla með því að notfæra sér vaxtamun milli landa.

Við höfum dæmi um það fyrir hrun þegar aðilar nýttu sér vaxtamun milli Íslands og útlanda og voru í spákaupmennsku með gjaldmiðilinn eða innlán banka í útibúum erlendis. Ég held að það sé alveg rétt sem Gylfi Zoëga bendir á, afnám hafta má ekki fela í sér slíka opnun. Á móti kemur að við vitum að höftin eru orðin mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki, lífeyrissjóði og nýsköpunarfyrirtæki vil ég nefna sérstaklega sem leita mjög eftir fjárfestingu erlendis frá. Því er spurningin nákvæmlega sú sem mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort næstu skref í losun hafta gætu verið opnun fyrir einhverja tiltekna aðila, höftum yrði áfram viðhaldið á einhverja aðra aðila hvað varðar þrotabú til að mynda, aflandskrónur. Fyrst og fremst er spurningin kannski sú sem mér finnst rétt að við ræðum hvort ekki sé öruggt að ekki verði ráðist í afnám hafta ef það felur í sér kjaraskerðingu fyrir almenning í landinu sem gæti orðið og jafnvel til einhverra ára. Hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að stífar reglur muni gilda eftir afnám hafta um stórar fjármagnshreyfingar líkt og þær sem ég nefndi áðan til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta, þannig að tryggt sé að slík losun, sem mörgum er mjög í mun um og segja að tækifærið sé núna til að ráðast í — en markmiðið hlýtur líka að vera að við varðveitum lífskjör almennings í landinu.