144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

losun gjaldeyrishafta.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Hún kemur að miklu kjarnaatriði sem er einmitt það að sú aðlögun sem við þurftum að taka út vegna lægra raungengis krónunnar átti sér stað á árunum 2008 og 2009 með miklum erfiðleikum fyrir heimilin í landinu og fyrir atvinnulífið allt.

Skráð fyrirtæki í Kauphöll þurrkuðust því sem næst út. Um 80% af skuldabréfum lífeyrissjóða urðu verðlaus á innlendum markaði og við höfum verið að ræða það síðan hvernig á þessu mætti taka.

Þess vegna er það algjört kjarnaatriði, í þeirri vinnu sem nú stendur yfir í ríkisstjórn og innan stjórnkerfisins, að gera allt sem hægt er að gera fyrir haftaafnámsferlið sem tryggir að ný aðlögun þurfi ekki að eiga sér stað. Það felur í sér að ná þarf fram talsvert miklum afskriftum af þeim eignum sem ella eru líklegar til að leita út úr hagkerfinu um leið og höft eru afnumin. Það felur líka í sér að tryggja að hér sé góð efnahagsleg staða og liður í þeirri vinnu er að tryggja umhverfi sem laðar fram fjárfestingu og til dæmis er það að loka fjárlagagatinu mjög stór liður í því.

Hvað tekur síðan við eftir að höftin eru farin, þá get ég sagt það að mér finnst líklegt að við munum þurfa að feta okkur inn í haftaafnámið, þ.e. að á endanum muni þetta þurfa að gerast í einhverjum skrefum. Kemur til greina að byrja haftaafnám í ákveðnum skrefum áður en stóru vandamálin yrðu leyst? Það kemur svo sannarlega til greina og er til skoðunar.

Hvernig tökumst við á við umhverfið eftir að höftin eru farin til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta? Ja, þar skiptir auðvitað trú á framtíðinni hér heima fyrir mjög miklu en eitt er fjármagnsflótti, annað (Forseti hringir.) er síðan afleiðuviðskipti með gjaldmiðilinn og við eigum að leita leiða til þess að koma í veg fyrir slík viðskipti sem gera lítið annað en að sveifla gengi krónunnar.