144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

losun gjaldeyrishafta.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Prófessorinn sem vitnað er til hefur oft og tíðum talað eins og hann teldi það vera óraunhæft. Mér hefur heyrst hann vilja tala sig inn á upptöku annars gjaldmiðils.

Ég er ekki sammála þeirri niðurstöðu prófessorsins og bendi á að jafnvel þótt einhverjar reglur mundu gilda um viðskipti með gjaldmiðilinn, eða reglur til dæmis á borð við þær sem mundu takmarka innlán innlendra fjármálastofnana erlendis í erlendum gjaldeyri, væru þær ekki annað en skynsamlegar varúðarráðstafanir og mundu seint falla í flokk með höftunum eins og þau gilda í dag.

Um þetta hefur Seðlabankinn nú þegar ritað nokkuð mikið rit sem listar upp ýmis úrræði sem væri hægt að grípa til en ég sé fyrir mér gjaldmiðil sem flýtur frjálst en með varúðarráðstöfunum.