144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

menningarsamningar landshlutasamtakanna.

[15:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að standast þá freistingu að svara bara í einu orði og eiga þá kannski stystu þingræðuna á þessu þingi. En ég vil þó segja að við hv. þingmaður erum algjörlega sammála um mikilvægi þessara samninga og að máli skiptir að ágætur fyrirsjáanleiki sé í þessu. Fjárframlögin eru þau sömu núna og voru síðast, það verður ekki breyting þar á, en rétt er að hafa í huga að í undirbúningi er að menningarsamningarnir verði sjálfstæður hluti samnings stjórnvalda um sóknaráætlun og landshlutaáætlanir, það er því ákveðin breyting þar á. En miklu máli skiptir að það sem snýr að menningarsamningunum klárist sem fyrst og við hv. þingmaður getum verið mjög sammála um það.