144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

tillögur nýrrar stjórnarskrárnefndar.

[15:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við Píratar erum að leggja fram þingsályktunartillögu sem við munum gera árlega þar til þetta mál nær fram að ganga um það að þjóðarviljinn skuli virtur eins og hann kom skýrt fram fyrir tveimur árum. Í tillögu okkar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fara beri að skýrum vilja meiri hluta kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og skorar á forsætisráðherra að hann hafi þessa ályktun að leiðarljósi við endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins á yfirstandandi kjörtímabili.“

Mér heyrist að hæstv. forsætisráðherra sé alla vega umhugað um einhverja þætti þess. Þetta var ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, gefur það henni minna vægi og hve miklu minna vægi? Þurfum við þá ekki að gera þetta beinna eins og þjóðin kallaði eftir í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu, að þjóðin geti gripið meira beint inn í og nefndin er einmitt að vinna slíka tillögu.

En varðandi tímarammann á þessu: Ef þetta á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum þá verður málið að vera tilbúið sex mánuðum fyrir forsetakosningarnar. Það þýðir að ef þessi mál gætu verið komin í þingið í vor, (Forseti hringir.) lítil umræða um það, sett í nefnd, farið að vinna þá fyrirsagnir, væri hægt að klára það á haustþingi eftir ár — er það eitthvað sem forsætisráðherra hugnast?