144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

uppbygging Vestfjarðavegar.

113. mál
[15:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að taka þetta mál hér upp og hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gaf hér.

Ég treysti hæstv. ráðherra vel í þessu máli og það hefur verið gott samráð við þingmenn kjördæmisins hvað það snertir. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og snúa að því að þetta verður að leysast tiltölulega hratt. Vegalagningin þarna hefur verið í miklu limbói í mjög langan tíma og hún skiptir íbúa á svæðinu gríðarlega miklu máli, atvinnuuppbyggingu sem á svæðinu er o.s.frv.

Ég er mjög opinn fyrir því að lagt verði fram þingmál til að leysa hnútinn og vil hvetja ráðherra til að skoða það samhliða þessu. Ég ber þó fullt traust til ráðherra í þeim leiðangri sem er nú að hefjast en unnið er í samráði við þingmenn og sveitarstjórn Reykhólahrepps, Vegagerð og umhverfisráðherra.

Gangi þetta ekki hratt og (Forseti hringir.) eðlilega fyrir sig þá er engu að síður fullkomlega eðlilegt (Forseti hringir.) að Alþingi takið málið í sínar hendur og leysi það.