144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

uppbygging Vestfjarðavegar.

113. mál
[15:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem á sér stað hér og vil taka undir það sem hefur komið fram hjá þeim sem hafa tjáð sig og hæstv. ráðherra, að það skipti gríðarlega miklu að þessu máli fari að ljúka, þ.e. að við finnum því farveg og leysum samgöngumál á sunnanverðum Vestfjörðum, komum þeim byggðarlögum sem þar eru í almennilegt vegasamband inn í nútíðina og tryggjum þar með möguleikann á atvinnuuppbyggingu, hvort sem er í ferðaiðnaði, laxeldi eða öðru slíku sem þar er unnið að.

Ég hef fengið tækifæri til að fylgjast með þeim hugmyndum sem hafa verið unnar í tengslum við þetta mál og styð framganginn, en tek undir að ég held að menn verði að hafa allt undir og þar með talið viðræður við landeigendur og leita eftir sátt við þá um hugsanlegar lausnir. Tíminn er að hlaupa frá okkur. Þó að það sé kannski lán í óláni að fjárlögin 2015 geri ekki ráð fyrir neinum nýjum framkvæmdum í samgöngumálum, sem er náttúrlega mjög alvarlegt (Forseti hringir.) mál, þá skulum við nú vona að við finnum lausnir á þessu sem allra, allra fyrst.